Skoðun

Vernduð í raun?

Bergsteinn Jónsson skrifar
Það eru fá börn í heiminum jaðarsettari en börn sem þurfa að yfirgefa heimkynni sín í leit að öryggi. Á ferðalagi þeirra leynast margar hættur og þau finna sig að lokum í ókunnu landi þar sem þau njóta takmarkaðrar verndar og bíða örlaga sinna. Sum koma ein, og önnur með fjölskyldum sínum. Ástæðurnar að baki eru ótalmargar og í raun er eingöngu hægt að gefa sér það að ekkert barn velur að flýja heimkynni sín og sækja um alþjóðlega vernd í ókunnu landi.

Eitt og hálft ár er síðan UNICEF og Rauði krossinn kölluðu eftir skýrri stefnu í málefnum fylgdarlausra barna. Í yfirlýsingu ítrekuðum við þá kröfu að börnin séu ekki hýst með fullorðnum og að sérstöku húsnæði sé komið upp fyrir þennan hóp. Að börnunum sé tryggður tilsjónarmaður sem sinnir því að grunnþörfum barnanna sé mætt. Þá var réttur barna til menntunar og félagsstarfs ítrekaður og að börn skuli ávallt njóta vafans vegna aldursgreininga.

Í dag kynnir UNICEF á Íslandi niðurstöður nýrrar skýrslu um réttindi barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Norðurlöndunum. Skýrslan ber nafnið Vernduð í raun? Greining á viðbrögðum Norðurlandanna við umsóknum barna um alþjóðlega vernd var unnin af rannsóknarmiðstöð UNICEF – Innocenti. Niðurstöður skýrslunnar staðfesta fyrri ábendingar okkar og þeirra sem starfa á þessu sviði.

Í skýrslunni er að finna mörg jákvæð dæmi um hvernig norræn ríki taka á móti börnum á flótta, Barnahús á Íslandi er eitt slíkt dæmi. En í henni er einnig að finna dæmi um það sem betur má fara. Þegar alþjóðlegar og innlendar skuldbindingar stjórnvalda gagnvart réttindum barna eru bornar saman við móttöku barna í leit að vernd, koma í ljós alvarlegar gloppur. Það er upplifun okkar sem störfum hjá UNICEF á Íslandi að íslensk stjórnvöld vilji vera í fremstu röð þegar kemur að réttindum allra barna og færum við því í dag félags- og jafnréttismálaráðherra tillögur að úrbótum, sem byggja á niðurstöðum skýrslunnar.

Barn er barn, sama hvaðan það kemur og öll börn eiga meðfædd eigin mannréttindi sem aldrei er hægt að fjarlægja. Börnin eiga þessi réttindi og það er okkar hinna fullorðnu að uppfylla þau. Við hjá UNICEF á Íslandi vitum að íslensk stjórnvöld eru sammála þessari fullyrðingu enda hafa þau stigið mikilvægt skref í þá átt með því að lögfesta Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við hlökkum til þess að eiga samtal við þau um efni skýrslunnar með það að markmiði að gera Ísland betra fyrir öll börn.

Höfundur er framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi


Tengdar fréttir

Lög brotin á fylgdarlausum börnum

Börn sem koma hingað í hælisleit njóta ekki þeirra réttinda sem nýleg lög eiga að tryggja þeim. Norðurlöndin standa sig betur en önnur Evrópuríki við móttöku barna en ekkert þeirra tryggir réttindi barna samkvæmt alþjóðlegum kröfum. UNICEF vill úrbætur.




Skoðun

Sjá meira


×