Innlent

Kaflaskiptingar í veðrinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það mun þó að mestu stytta upp í kvöld.
Það mun þó að mestu stytta upp í kvöld. Vísir/Anton
Þrenn skil munu ganga yfir landið í dag og á morgun. Gera má því ráð fyrir rigningu og suðlægum áttum á köflum. Veðurstofan segir þó að það verði úrkomuminna „á milli“ skilanna og að vindurinn ná jafnframt ekki að verða hvass.

Það verði einnig lengst af þurrt á Norðaustur- og Austurlandi og mun ætíð lægja „ágætlega“ á milli skilanna. Hitinn verður 3 til 8 stig að deginum og verður hlýjast austast.

Þá verður „þokkalega milt veður“ fram eftir vikunni þótt að spár geri ráð fyrir því að það frysti inn til landsins að næturlagi.

Undir helgi gera flestar spár hins vegar ráð fyrir að frysti víðast hvar með ofankomu fyrir norðan en skúrum eða éljum syðra.



Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Suðlæg átt, víða 5-10 m/s, en heldur hvassara vestast. Rigning með köflum, en úrkomulítið NA-til. Hiti 2 til 7 stig.

Á fimmtudag:

Sunnan 5-10 m/s, en hægari breytileg átt eftir hádegi. Rigning eða slydda af og til, en yfirleitt þurrt N-lands. Hiti 1 til 7 stig, mildast syðst.

Á föstudag:

Norðaustan 10-18 m/s og snjókoma NV-til, annars hægari og lítilsháttar rigning eða slydda. Hiti 0 til 5 stig S-lands og við A-ströndina, en annars vægt frost.

Á laugardag:

Vestlæg átt. Dálitlar skúrir eða él um landið sunnanvert en snjókoma eða slydda fyrir norðan. Víða frostlaust við ströndina en annars vægt frost.

Á sunnudag:

Suðlæg átt og stöku él um lansið sunnan- og vestanvert en austlæg allra nyrst og úrkomumeira. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×