Innlent

Klesstu stolinn bíl og stungu af

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þríeykið reyndi að hlaupa af vettvangi.
Þríeykið reyndi að hlaupa af vettvangi. Vísir/eyþór
Þrír einstaklingar reyndu að hlaupa af vettvangi eftir að hafa valdið árekstri á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar skömmu fyrir klukkan eitt í nótt. Lögreglunni tókst þó að hafa hendur í hári þeirra skömmu eftir áreksturinn og í skeyti hennar kemur fram að ökumaður bifreiðarinnar sé grunaður um að hafa verið vímaður við aksturinn.

Þá er þríeykið jafnframt sagt hafa tekið bifreiðina sem þeir óku, og klesstu, ófrjálsri hendi ásamt því að hafa fíkniefni í fórum sínum. Að sama skapi eru þeir sagðir hafa ekið bifreiðinni á móti rauðu ljósi. Ekki fylgir sögunni hvert ástand hins stolna bíls er eftir áreksturinn en meiðsl þjófanna eru sögð minniháttar.

Lögreglan handtók jafnframt konu, sem er sögð hafa verið í annarlegu ástandi, við Barnaspítala Hringsins á tíunda tímanum í gærkvöldi. Þegar verið var að koma henni fyrir í fangaklefa, þar sem hún hefur mátt dvelja í nótt, segir lögreglan að á henni hafi fundist fíkniefni.

Þá var ekið á gangandi vegfaranda við Reykjavík á um svipað leyti. Sjúkrabifreið flutti vegfarandann á slysadeild en ekki er vitað um meiðsl hans að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×