Enski boltinn

Mourinho var einu sinni snillingur en núna eru aðferðir hans bara gamaldags

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Chris Sutton, fyrrum framherji Chelsea og Blackburn, gagnrýnir aðferðir knattspyrnustjóra Manchester United og er á því að persónuleiki Jose Mourinho hafi breyst. Ian Wright gæti ekki hugsað sér að spila fyrir portúgalska stjórann í dag.

Chris Sutton var gestur Monday Night Club á BBC og fór yfir stöðuna hjá Manchester United sem féll út fyrir Sevilla í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Mourinho í dag er allt annar persónuleiki en sá heillandi maður sem við sáum fyrst árið 2004. Núna stendur hann í asnalegu og perónulegu orðaskaki í tíma og ótíma,“ sagði Chris Sutton.

„Er þetta sorgleg staða fyrir Manchester United eins staðan er núna? Svarið er nei,“ sagði Sutton og hélt áfram.

„Ég spyr bara hvort að þetta staðan sem Mourinho sættir sig við? Að enda í öðru sæti á eftir Manchester City og keppa ekki um stóru bikarana. Þetta er búið að setja hann út af laginu,“ sagði Sutton.





 „Núna horfir hann yfir borgina og sér hvernig fótbolta City og svo Liverpool eru að spila. Þetta er maður sem var talinn vera snillingur þegar hann kom hingað fyrst. Núna líta aðferðir hans bara út fyrir að vera gamaldags miðað við hvernig fótbolta hans lið spilar í dag,“ sagði Sutton.

Hinn 55 ára gamli Jose Mourinho hefur unnið enska meistaratitilinn þrisvar sinnum með Chelsea. Hann tók við starfinu hjá Manchester United af Louis van Gaal í maí 2016.

Manchester United vann enska deildabikarinn og Evrópudeildina á hans fyrsta tímabili með liðið.

Ian Wright, fyrrum leikmaður Arsenal, segir að hann myndi ekki vilja spila fyrir Jose Mourinho í dag.

„Ég veit ekki hvað kom fyrir hann. Manchester United náði í Mourinho til að koma félaginu aftur í hæstu hæðir. Hann hefur eytt miklum peningi í leikmenn en núna tekst honum bara að rífast við alla,“  sagði Ian Wright.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×