Enski boltinn

Segja Barca, Real og PSG öll vilja gera Salah að dýrasta leikmanni heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah.
Mohamed Salah. Vísir/Getty
Mohamed Salah hefur raðað inn mörkum á sínu fyrsta tímabilið með Liverpool og það hefur að sjálfsögðu kallað á sögursagnir um mikinn áhuga á leikmanninum frá stærstu félaga heims.

Eftir fernuna á móti Watford um helgina hefur sú umræða aðeins aukist og í morgun slær The Sun því upp að Barcelona, Paris Saint-Germain og Real Madrid séu öll tilbúin að borga 200 milljónir punda fyrir egypska framherjann.

Samkvæmt þessu gæti heimsmet Neymar verið í hættu og Mohamed Salah orðið dýrasti knattspyrnumaður heims innan nokkurra mánaða.





Mohamed Salah er enn bara 25 ára gamall og hann á fjögur ár eftir af samningi sínum við Liverpool. Eftir vonbrigðin hjá Chelsea þá hefur hann talað um ákveðni sína að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina og standa sig.

Mohamed Salah er þegar kominn með 37 mörk í 43 leikjum í öllum keppnum og 28 af mörkunum hafa komið í ensku úrvalsdeildinni. Hann er búinn að sanna sig í enska boltanum og gott betur en það.

Jürgen Klopp varð þvingaður til að selja Philippe Coutinho til Barcelona í janúar og Liverpool segist ekki ætla að selja Salah. Klopp er að reyna að byggja upp nýtt meistaralið á Anfield og það mun ganga mjög hægt ef hann þarf svo alltaf að selja sína bestu leikmenn.

Liverpool keypti Mohamed Salah á 34,3 milljónir punda frá Roma síðasta sumar en þetta eru að breytast í ein bestu kaup allra tíma. Ef félagið selur Salah fyrir 200 milljónir í sumar þá væri hann búinn að nær sexfaldast í verði.

Samkvæmt frétt The Sun þá reikna Barcelona, Paris Saint-Germain og Real Madrid öll með því að eigendur Liverpool gæti ekki staðist freistinguna að selja framherjann sjái þeir fram á svo mikinn gróða á aðeins einu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×