Erlent

Síðasta karldýr tegundarinnar dautt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Súdan, sem sést hér árið 2016, var orðinn 45 ára gamall. Það er sagt jafngilda 90 mennskum árum.
Súdan, sem sést hér árið 2016, var orðinn 45 ára gamall. Það er sagt jafngilda 90 mennskum árum. Vísir/AFP
Nashyrningurinn Súdan, sem var orðinn 45 ára gamall, var svæfður í gær. Dauði hans markar þáttaskil því hann var síðasta karldýr sinnar tegundar, sem er önnur af tveimur undirtegundum hvíta nashyrningsins. Nú eru aðeins tvö kvendýr eftir, sem jafnframt ertu dóttir og barnabarn Súdans, og því allar líkur á að stofninn muni deyja út á næstu árum.

Súdan hafði glímt við mikil veikindi undanfarna mánuði og töldu starfsmenn verndarsvæðisins þar sem hann hafðist við undir það síðasta að ekki væri mannúðlegt að halda honum á lífi lengur.

Tilraunir til að fá Súdan til að makast með kvendýrunum tveimur höfðu allar mistekist og óttuðust vísindamenn því að útdauði tegundarinnar væri aðeins tímaspursmál.

Til að vekja athygli á málinu útbjuggu vísindamennirnir Tinder-aðgang fyrir Súdan, ekki til þess að komast í kynni við aðra nashyrninga heldur til þess að vekja máls á dýravernd og safna peningum fyrir rannsóknir á tæknifrjóvgun. Slíkar rannsóknir eru taldar eina vonarglætan fyrir nashyrningategundina.

Tinder-uppátækið aflaði Súdan mikilli vinsælda um heim allan og búast má við því að þúsundir aðdáenda hans muni syrgja fráfall hans.

Vísindamenn tóku lífsýni úr hræi Súdans og vona þeir að í fyllingu tímans verði hægt að nýta erfðaefni hans til að endurvekja tegundina.

Undir það síðasta þjáðist Súdan af margvíslegum kvillum, ekki síst í stoðkerfinu og húðinni. Þegar hann gat ekki lengur staðið vegna verkja var ákveðið að svæfa Súdan, sem breska ríkisútvarpið segir að hafa verið orðinn 90 ára gamlan í mannsárum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×