Enski boltinn

Rojo hélt að Sir Alex myndi henda honum út eftir flugeldasýningu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sir Alex Ferguson er fastur gestur í stúkunni á leikjum United
Sir Alex Ferguson er fastur gestur í stúkunni á leikjum United vísir/getty
Argentínumaðurinn Marcus Rojo hélt að dagar hans hjá Manchester United væru taldir stuttu eftir að hann kom til félagsins eftir að hafa sprengt flugelda nálægt húsi Sir Alex Ferguson.

Rojo kom til United frá Sporting í ágúst 2014. Um jólin sama ár kom fjölskylda Rojo í heimsókn til hans í Manchester.

„Þau fara öll snemma að sofa en ég vildi koma þeim á óvart svo ég skaut upp flugeldum eftir miðnætti,“ sagði Rojo í viðtali við argentíska fjölmiðla.

Rojo býr í sama hverfi og fyrrum knattspyrnustjóri og goðsögn í lifanda lífi hjá United, Sir Alex.

„Við áttum leik næsta dag og Ferguson kemur alltaf að horfa á okkur þegar við spilum á Old Trafford.“

„Þegar ég mætti honum á ganginum sagði hann við mig: „Þetta var góð ljósasýning sem þú bauðst upp á í gærkvöldi.““

„Ég vildi að jörðin myndi gleypa mig, ég hélt hann myndi henda mér út úr félaginu á stundinni en sem betur fer tók hann þessu vel.“

Rojo hefur spilað 10 leiki í öllum keppnum með United á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×