Handbolti

Seinni bylgjan: „Ég held að þær eigi ekki séns í Fram“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fram vann ÍBV sannfærandi í lokaumferð Olís deildar kvenna í handbolta en liðin mætast síðan strax í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Seinni bylgjan ræddi möguleika ÍBV-liðsins á móti Íslands- og bikarmeisturum Fram og sumir þeirra eru ekki bjartsýnir fyrir hönd Eyjakvenna.

„ÍBV getur bara ekki spilað við Fram. Við erum með nógu mörg dæmi. Það er 4-0 núna á tímabilinu,“ sagði Tómas Þór Þórðarson.

„Miðað við það sem Hrafnhildur Skúla segir í viðtalinu þá er eins og þær hafi kastað inn handklæðinu ansi snemma,“ sagði Dagur Sigurðsson en Hrafnhildur hafði talað um uppgjöf hjá sínum stelpum í leiknum á móti Fram í Safamýrinni.

„Hún var mjög ósátt með sínar stelpur,“ sagði Tómas. Framliðið var líka að svara fyrir dýrkeypt tap í leiknum á undan.

„Ég held að Framstelpurnar hafi verið rosalega svekktar með að hafa tapað leiknum á móti Haukum eftir bikarsigurinn og misst þar með af deildarmeistaratitlinum,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson og hann er viss um að enginn hafi verið svekktari en einmitt þjálfari liðsins.  

„Ég hef séð mörg viðtöl við Stefán Arnarson, þjálfara Fram, eins og þegar hann var í Val. Hann var alltaf að tala um hvað deildarmeistaratitilinn væri frábær og erfiðasti titilinn að vinna. Ég held að honum hafi langað dálítið í það viðtal eftir tímabilið,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson.

Dagur Sigurðsson var á því að Eyjakonur munu standa sig betur þegar þær eru komnar inn í úrslitakeppnis andrúmsloftið en Jóhann Gunnar var ekki sammála.

„Ég held að þær eigi ekki séns í Fram,“ sagði Jóhann Gunnar.

Það má sjá alla umfjöllunina um Fram og ÍBV í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×