Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Tindastóll 83-114 | Stólarnir komnir í 2-0 eftir stórsigur í Grindavík

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dagur Kár Jónsson.
Dagur Kár Jónsson. Vísir/Anton
Tindastóll rótburstaði Grindavík í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla. Lokatölur urðu 114-83 og Tindastóll því kominn í 2-0 í einvíginu og getur tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri í þriðja leik liðanna á föstudag.

Leikurinn var jafn til að byrja með. Stólarnir komust þó fljótt sjö stigum yfir en Grindvíkingar misstu þá ekki langt fram úr sér í fyrri hálfleik.

Leikmenn Tindastóls voru þó að hitta mikið betur og Grindvíkingar létu flautukonsert dómaranna fara afskaplega mikið í taugarnar á sér. Munurinn varð mest 12 stig í fyrri hálfleik en Grindvíkingar náðu því niður í 9 stig fyrir hlé og var það í raun ágætlega sloppið því heimamenn voru hvorki að hitta né leika sérlega vel.

Í seinni hálfleik tóku Tindastólsmenn hins vegar alveg yfirhöndina. Grindvíkingar reyndu að sína klærnar en í hvert skipti sem það gerðist svöruðu Stólarnir af krafti. Þeir hittu afskaplega vel á meðan skotin voru ekki að detta niður hjá heimamönnum. Munurinn var 15 stig fyrir lokafjórðunginn og Grindavík enn í séns þó lítið benti til þess að heimamenn myndu skella í áhlaup.

Enda kom það aldrei. Stólarnir gáfu bara í og Grindvíkingar gáfust upp. Munurinn hélt áfram að aukast og að lokum endaði hann í 31 stigi og Stólarnir því komnir í 2-0 í einvíginu.

Af hverju vann Tindastóll?

Þeir léku einfaldlega betur, hittu betur og voru betur stemmdir í dag. Þeir fögnuðu hverri körfu vel og fengu mikinn stuðning af pöllunum þar sem Skagfirðingar höfðu yfirhöndina gegn heimamönnum.

Liðsvörn og liðsheild Tindastóls voru þættir sem unnu leikinn fyrir þá í dag auk frábærrar hittni. Það er erfitt að vinna jafn sterkt lið og Tindastól þegar þessir hlutir eru í lagi hjá þeim.

Varnarleikur Grindvíkinga var slakur og sóknin ekki til útflutnings heldur. Jóhann Ólafsson þjálfari talaði um að þeir hefðu brotnað andlega og að það væri saga tímabilsins. Fyrir föstudaginn hafa þeir því ansi mikið að vinna í.

Þessir stóðu upp úr:

Antonio Hester var algjörlega magnaður hjá Tindastóli. Hann skoraði að vild og endaði með 28 stig á 26 mínútum. Hann hitti úr 13 af 17 skotum sínum utan af velli og tók 7 fráköst. Sigtryggur Arnar Björnsson var sömuleiðis frábær og skoraði 26 stig og hitti einnig vel.

Hjá Grindavík var Dagur Kár með 22 stig og Ólafur Ólafsson bætti við 17. J´Nathan Bullock og Sigurður Þorsteinsson skoruðu samtals 18 stig í kvöld og Suðurnesjamenn þurfa þá í 6.gír á föstudag ætli þeir sér sigur.

Hvað gekk illa?

Grindvíkingar virtust illa stemmdir í leiknum. Þeir urðu fljótt pirraðir á dómgæslunni og brotnuðu algjörlega í seinni hálfleik þegar Stólarnir gáfu í. Jóhann þjálfari kallaði oft á sína menn að koma boltanum í teiginn þegar Stólarnir voru að skipta á varnarblokkum en það gekk lítið.

Liðsvörn heimamanna fann sig engan veginn og þeir náðu ekki að koma J´Nathan Bullock inn í leikinn. Það var margt sem gekk illa og lokastaðan sýnir það.

Hvað gerist næst?

Þriðji leikur liðanna fer fram á föstudag og sem betur fer fyrir Grindavík skiptir engu máli hvort leikur tapast með 1 eða 31 stigi, Tindastóll fær bara einn sigur í einu.

Með sigri á föstudag fara Tindastólsmenn í undanúrslit en Grindvíkingar geta nælt sér í annan heimaleik með sigri.

Jóhann Þór: Við þurfum að grafa djúpt
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.vísir/ernir
„Við vorum slakir. Þetta var svolítið saga tímbilsins hjá okkur, andlaust og við veikir andlega. Við erum inni í leiknum í 25-26 mínútur og það voru augnablik sem við hefðum getað nýtt okkur í byrjun seinni hálfleiks. Við gerum það ekki og okkar leikur hrynur andlega,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir tapið gegn Tindastóli í kvöld.

„Það þarf að hrósa Stólunum. Þeir spiluðu vel og hittu hrikalega vel en varnarlega erum við mjög slakir. Það vinnur upp á móti hvort öðru. Ég er fyrst og fremst svekktur. Við vorum hörkugóðir fyrir Norðan og að ná ekki að fylgja eftir þeirri frammistöðu er mjög lélegt,“ en fyrsti leikur liðanna fór í framlengingu og áttu flestir von á spennuleik í kvöld.

„Sóknarlega erum við ekki nægilega sleipir að nýta okkur það þegar þeir skipta á blokkum. Við erum „soft“, þeir berja á okkur og við vælum. Þetta helst allt í hendur og þegar öllu er á botninn hvolft eru þeir miklu betri en við og áttu þetta fyllilega skilið.“

Þriðji leikur liðanna er á föstudaginn og með tapi eru Grindvíkingar úr leik.

„Við þurfum að grafa djúpt en það er ekki langur tími fram að næsta leik. Við leggjum þetta þannig upp að við ætlum að koma hingað aftur. Við leggjumst ekkert niður og gefumst upp og komum til með að gefa þessu leik á föstudaginn, það er klárt. Við þurfum að grafa djúpt en spurningin er hvort við höfum tíma í það,“ sagði Jóhann að lokum.

Martin: Vörnin er aðalatriðið
Israel Martin, þjálfari Tindastóls.Vísir
„Við bjuggumst við erfiðum leik og hann var það þó stigataflan sýni annað. Þetta var leikur í 35 mínútur og við hittum mjög vel í dag og betur en við bjuggumst við. Þriggja stiga skotin og löngu tvistarnir voru að detta. Stundum hittir maður illa og stundum vel, við getum ekki stjórnað þessu,“ sagði Israel Martin þjálfari Tindastóls eftir að hans menn burstuðu Grindvíkinga á útivelli í kvöld og komu sér í lykilstöðu í einvíginu.

„Mér fannst við hafa betri stjórn á J´Nathan Bullock og Sigurði Þorsteinssyni í vörninni í kvöld en á föstudag. Þeir skoruðu mikið á Króknum en í dag stjórnuðum við þeim betur,“ bætti Martin við.

Hann sagði vörnina vera lykilatriði í úrslitakeppninni en benti einnig á hluti í sóknarleiknum sem skiptu máli í kvöld.

„Vörnin er aðalatriðið. En í kvöld erum við með 24 stoðsendingar sem er mikilvægt, töpum bara 10 boltum og vinnum frákastabaráttuna. Þessir þrír hlutir eru ákaflega mikilvægir í úrslitakeppni og tryggðu okkur stigin í kvöld.“

Næsti leikur í einvíginu fer fram á föstudag og þar geta Stólarnir tryggt sér sæti í undanúrslitum með því að sópa Grindvíkingum út.

„Það verður erfitt. Þeir eru með frábært lið og mikla reynslu. Þeir munu berjast, það er ljóst. Við verðum tilbúnir og fyrir leik sem verður erfiðari í kvöld. Þeir vilja koma til baka og við þurfum að ná okkur vel fyrir föstudaginn.“

„Á morgun finnum við svo leið til að mæta í góðu ástandi andlega á föstudaginn. Nú snýst þetta um andlegu hliðina. Við gætum tapað en ef við mætum andlega eigum við góðan möguleika,“ sagði Israel Martin að lokum, langt frá því að vera farinn að hugsa um sæti í undanúrslitum.

Sigtryggur Arnar: Við vanmetum ekki neinn
Sigtryggur Arnar Björnsson var frábær hjá Tindastóli í kvöld.Vísir/Eyþór
„Ég bjóst við öðrum spennandi leik eins og heima hjá okkur. En við tókum þetta bara í seinni hluta leiksins. Þá sprungum við út,“ sagði Sigtryggur Arnar Björnsson sem átti frábæran leik fyrir Tindastól í sigrinum á Grindavík í kvöld. Stólarnir eru komnir í 2-0 í einvíginu og geta tryggt sæti í undanúrslitum með sigri í þriðja leik liðanna á föstudag.

 „Við erum að spila geggjaða liðsvörn og geggjaða sókn saman sem lið. Við erum keyra á körfuna, menn falla og við finnum opna manninn. Svo setjum við opnu skotin,“ bætti Sigtryggur Arnar við.

Hann hefur átt við meiðsli að stríða fyrir úrslitakeppnina og var jafnvel búist við því að hann gæti ekki leikið í upphafi hennar.

„Mér líður vel. Ég bjóst við að vera smá ryðgaður en það er ekki að sjá, allavega ekki hingað til. Þetta er fínt. Ég get spilað í gegnum þetta en ég sé alltaf hvernig ég er fyrir hvern leik í rauninni.“

Tindastóll getur tryggt sér sigur í einvíginu með sigri á Sauðárkróki á föstudag.

„Það verður hörkuleikur. Þeir vilja ekki láta sópa sér út og þeir mæta brjálaðir til leiks og reyna stela leik á okkar heimavelli,“ bætti Sigtryggur Arnar við og sagði að lokum enga hættu vera á vanmati í herbúðum Tindastóls.

„Alls ekki, við vanmetum ekki neinn.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira