Innlent

Hætta ekki að leita svara

Samúel Karl Ólason skrifar
Eva Hauksdóttir og Haukur Hilmarsson.
Eva Hauksdóttir og Haukur Hilmarsson. Vísir

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar sem talinn er hafa fallið í Sýrlandi í síðasta mánuði, segir að lík Hauks sé ekki í forgangi hjá fjölskyldu hans, heldur staðfesting á því að Haukur sé látinn. Það hafi þau ekki fengið eftir að Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra, ræddi við Nurettin Canikli, varnarmálaráðherra Tyrklands, í síma í gær.



Canikli sagði Tyrkja ekki vera með Hauk í haldi.



Í færslu á bloggsíðu sinni segir Eva að það megi skilja sem að þeir séu ekki með lík hans heldur.



„Við hljótum að reikna með að hann sé þá í það minnsta ekki á neinni skrá hjá þeim heldur hafi hann annaðhvort bjargast á einhvern dularfullan hátt, eða það sem líklegra er, að jarðneskar leifar hans séu einhvers staðar milli þorpanna Badina og Demilya,“ skrifar Eva.



Hún segir fjölskyldu Hauks hafa heyrt frá fyrstu hendi sögu fólk sem fékk lík ástvina sem féllu í Sýrlandi allt að tveimur árum seinna. Það sé þó ekki það mikilvægasta sem fjölskyldan sé eftir.



„Okkur vantar ekki líkið sem slíkt heldur staðfestingu á því að Haukur sé látinn. Við höfum hana ekki en við höfum þó staðfestingu á því að hann sé ekki í haldi Tyrkja. Við erum sammála um það ég og faðir Hauks, unnusta hans og uppkominn bróðir, að láta ekki þagga niður í okkur út á möguleikann á því að líkið finnist.“



Færslu Evu fylgir yfirlýsing þar sem fjölskylda Hauks biður fólk um að taka þátttöku hans í átökunum sér ekki til fyrirmyndar.



„Við teljum afar óæskilegt að styðja frelsisbaráttu ofsóttra hópa með þeim hætti sem Haukur hefur gert síðustu 9 mánuðina og biðjum fólk fyrir alla muni að taka hann sér ekki til fyrirmyndar að því leyti. Það eru til ótal aðrar og öruggari aðferðir til að styðja baráttuna gegn kúgun og ofsóknum og af skrifum Hauks að dæma er það hreint ekki eins spennandi og ætla mætti að taka þátt í vopnuðum átökum.“



Eva skrifaði sömuleiðis um ástandið í Sýrlandi og aðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum og kallar hún eftir því að íslenska ríkið fordæmi aðgerðir Tyrkja.


Tengdar fréttir

„Hver dagur, hver klukkustund er dýrmæt“

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar sem talinn er hafa látist í loftárás í Sýrlandi í febrúar, segir ekki hægt að staðfesta lát sonar síns og að samkvæmt lögum eigi íslenska ríkið að leita hans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×