Innlent

Leggur fram frumvörp um bann við allri mismunun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra
Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra Vísir/Eyþór
Frumvörp Ásmundar Einars Daðasonar félags- og jafnréttismálaráðherra um jafna meðferð á vinnumarkaði og um jafna meðferð fólks óháð kynþætti og þjóðernisuppruna hafa verið lögð fram á Alþingi. Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Ásmundur segir fagnaðarefni að frumvörpin séu nú komin fyrir þingið og efni þeirra sé mikilvægt þar sem það varði virðingu fyrir mannréttindum og vernd gegn brotum á þeim.

„Stjórnarsáttmálinn er skýr hvað þetta varðar og ég treysti því að þessi frumvörp fái gott brautargengi á Alþingi.“

Þá bendir Ásmundur á að hinar Norðurlandaþjóðirnar og önnur Evrópuríki hafi þegar innleitt tilskipun Evrópusambandsins um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna eða endurspeglað efni hennar í landsrétti sínum. Ásmundur segir jafnframt ótækt að Ísland verði eftirbátur vestrænna ríkja þegar kemur að vernd einstaklinga gegn mismunun.

„Nú verðum við að koma þessum  málum í höfn.“

Jöfn meðferð á öllum sviðum

Með frumvarpi um jafna meðferð á vinnumarkaði eru lögð til skýr ákvæði sem banna alla mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.

Síðarnefnda frumvarpið kveður svo á um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar. 

Með skýru banni við mismunun er horft til þess að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga af sömu ástæðum, að því er segir á vef Stjórnarráðsins. Þá er markmiðið einnig að sporna við því að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi hér rætur.

Frumvarp um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna má nálgast hér og frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×