Innlent

Bað fórnar­lömb og að­stand­endur þeirra af­sökunar vegna mis­taka starfs­manns borgarinnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Marta Guðjónsdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Marta Guðjónsdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. sjálfstæðisflokkurinn
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér hljóðs á fundi borgarstjórnar í dag og bað fyrir hönd borgarfulltrúa flokksins fórnarlömb og aðstandendur þeirra afsökunar vegna mistaka starfsmanns Reykjavíkurborgar þegar ekki var brugðist við tilkynningu um meintan kynferðisbrotamann árið 2008. Barst tilkynning um meint kynferðisbrot starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur aldrei til Barnaverndar.

Marta sagði í ræðu sinni að það væri ljóst að ekki væri nóg að setja reglur og verkferla; gera þyrfti reglulega úttekt á þeim.

„Það þarf að vera til staðar innra eftirlit á þessari þjónustu til að hægt sé að bregðast strax við ef grunur leikur á að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Það er ljóst að í þessu tiltekna alvarlega máli sem innri endurskoðun gerði úttekt á hafi kerfið brugðist. Það verður að teljast einkennilegt að ábyrgðinni skuli hafa verið varpað á almenna starfsmenn og skuldinni skellt á þá, þetta er eins og að hengja bakara fyrir smið. [...] Það eru æðstu stjórnendur, borgarstjóri og borgarstjórn sem eiga að axla ábyrgð í þessu máli. Þess vegna viljum við  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins  biðja fórnarlömb og aðstandendur þeirra opinberlega afsökunar fyrir hönd Reykjavíkurborgar,“ sagði Marta.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kom í pontu á eftir Mörtu og sagði að hann tæki undir það með henni að fyllsta ástæða væri til þess að biðjast afsökunar á mistökunum.

„Ég held að ég tali ekki bara fyrir munn þeirra sem hér eru heldur líka velferðarsviðs almennt og þeirra sem að þessu hafa komið að það er auðvitað miður að svona er komið og að þetta hafi gerst á sínum tíma. Þess vegna var nú óskað eftir þessari úttekt allri saman til að það væri hægt að fara yfir það og læra af því,“ sagði borgarstjóri.

Upptöku frá fundi borgarstjórnar má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×