Innlent

Hamagangur í Höfðunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bíl var meðal annars ekið utan í lögreglubifreið.
Bíl var meðal annars ekið utan í lögreglubifreið. Vísir/eyþór
Það var handagangur í öskjunni í nótt þegar lögreglan hafði hendur í hári þriggja einstaklinga sem reyndu að brjótast inn í fyrirtæki í Höfðahverfi Reykjavíkur.

Þegar lögreglumenn mættu á vettvang um klukkan 3 í nótt sáu þeir bíl þjófanna og gáfu ökumanni hans merki um að stöðva aksturinn. Þegar þríeykið rak augun í lögreglumenninna ákvað ökumaðurinn, í stað þess að stöðva, að stíga bensínið í botn á fyrsta gíri og aka utan í lögreglubifreið sem á móti kom.

Bílnum var því næst ekið á móti rauðu ljósi yfir gatnamót við Höfðabakka og stöðvaði ekki fyrr en í Breiðhöfða. Þar tókst lögreglumönnum að handsama tvo en sá þriðji hljóp í burtu. Hann var svo að lokum handtekinn við Bíldshöfða. Um er að ræða tvo karla og eina konu sem öll voru flutt í fangageymslu þar sem þau voru vistuð vegna rannsóknar málsins.

Þau eru grunuð um „innbrotstilraun, að fara ekki að fyrirmælum lögreglu, umferðaróhapp, akstur gegn rauðu ljósi, akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna, brot á vopnalögum og mögulega fleiri brot,“ eins og segir í skeyti lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×