Innlent

Það er laus hæna á Hringbraut við JL húsið

Jakob Bjarnar skrifar
Blessaðar hænurnar eiga það til að bregða undir sig betri fætinum og verður þá jafnan uppi fótur og fit.
Blessaðar hænurnar eiga það til að bregða undir sig betri fætinum og verður þá jafnan uppi fótur og fit. visir/vilhelm
„Það er laus hæna á Hringbraut við JL húsið. Einhver sem saknar hennar eða þekkir fólk með hænur í Vesturbæ?“

Tilkynningar á borð við þessa eru ekki óalgengt að sjá á Facebook, til að mynda í hópum sem hafa verið myndaðar um tiltekin hverfi borgarinnar. Þetta bendir til þess að nokkuð færist í aukana að fólk haldi hænur og það sem meira er, frjálsar hænur eru kannski of frjálsar í anda – ef eitthvað er. Og vilja skoða sig um í heiminum. Eigendum gengur misvel að hafa taumhald á sínum hænsnfuglum.

Ekki er óalgengt að sjá tilkynningar á borð við þessa á Facebook.
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Vísi að gefin hafi verið út tíu leyfi fyrir hænsnahaldi í borginni.

„Heilbrigðiseftirlitið segir að líklega séu fleiri sem halda hænur en leyfin segja til um og hvetur þá til að sækja um leyfi snarlega,“ segir Bjarni. Hann bendir á að nánari upplýsingar um hænsnahaldið megi finna hér.

Bjarni segir jafnframt að hvert leyfi um sig taki til þess að fólk megi að hámarki vera með fjórar hænur. Og engan hana, vel að merkja, það er bannað þannig að þar er sótt að karlkyninu eins og kannski á öðrum vígstöðvum innan borgarmarka. En, ástæðan er vitaskuld fyrirferð í hönunum; almennur ofstopi og hávaði fyrir allar aldir.

Þetta þýðir að ef hænsnafólk í Reykjavík er löghlýðið þá eru að hámarki 40 hænur í Reykjavík. Aðeins. Og merkilegt í ljósi þess hversu oft þær sleppa lausar úr görðum sínum sé litið til fjölda tilkynninga um lausar hænur í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×