Enski boltinn

Maðurinn sem keypti Jón Daða til Reading þurfti að taka pokann sinn í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson. Vísir/Getty
Þegar íslenski landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson kemur heim frá landsliðsverkefninum í Bandaríkjunum þá verður hann kominn með nýjan knattspyrnustjóra.

Reading rak í dag hollenska knattspyrnustjórann Jaap Stam en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu nítján deildarleikjum í ensku b-deildinni.

Þessi fyrrum leikmaður Manchester United og hollenska landsliðsins, kom Reading í umspilið á sínu fyrsta ári með liðið en núna er Reading aðeins þremur stigum frá fallsæti.





Jaap Stam keypti Jón Daða frá Wolves síðasta haust og íslenski framherjinn var frábær í byrjun þessa árs eftir rólega byrjun. Mörkin hans Jóns Daða voru þó ekki nóg til að bjarga manninum sem keypti hann.

Jaap Stam lagði skóna á hilluna árið 2007 en hafði verið aðstoðarþjálfari og þjálfari unglingaliðs Ajax áður en hann kom til Reading.

Síðasti leikur liðsins undir stjórn Jaap Stam var 3-2 tap á móti Norwich City um síðustu helgi en Reading liðið lenti 3-1 undir í hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×