Innlent

Guðni óskar Pútín til hamingju með sigurinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson og Vladimir Putin á Arctic Forum-ráðstefnunni í Arkhangelsk í Rússlandi í fyrra.
Guðni Th. Jóhannesson og Vladimir Putin á Arctic Forum-ráðstefnunni í Arkhangelsk í Rússlandi í fyrra. Vísir/AFP
Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sendi í dag, miðvikudaginn 21. mars 2018, heillaóskir til forseta Rússlands, Vladímírs Pútíns, sem var kjörinn á ný í embætti um helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.

Í kveðju sinni minnir forseti á þá skyldu þjóðarleiðtoga að vinna að öryggi og hagsæld íbúa. Brýnt sé að fulltrúar ríkja geti rætt saman af hreinskilni.

„Miklu skiptir að þjóðarleiðtogar leiti ætíð friðsamlegra lausna þar sem ófriður ríkir og styðji hvarvetna öryggi, hagsæld og einstaklingsfrelsi.“ 

Sjá einnig: Guðni skaut á Putin sem bauðst til að lána Íslendingum her

Loks segir forseti í bréfi sínu að þrátt fyrir miklar sviptingar á alþjóðavettvangi hafi gagnkvæm samskipti Íslands og Rússlands verið báðum ríkjum hagfelld. Heilladrjúg framtíð norðurslóða og íbúa þeirra byggist á sjálfbærri þróun, umhverfisvernd og góðri samvinnu þjóðanna sem þar búa.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, bar sigur úr býtum í forsetakosningum þar í landi á sunnudag. Pútín hlaut 76 prósent atkvæða og mun því gegna embætti forseta áfram næstu sex árin.

Leiðtogar vestrænna ríkja höfðu margir ekki tjáð sig um úrslitin í gær, utan Angelu Merkel kanslara Þýskalands og Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, en vaxandi spenna er í samskiptum vestrænna ríkja við Rússland, ekki síst eftir meint afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 auk taugaeitursárásar á rússneskan fyrrverandi njósnara og dóttur hans í Bretlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×