Handbolti

FH-ingar gætu á endanum ráðið því hvort ÍBV eða Selfoss verður meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
ÍBV unnu bikarinn á dögum og geta unnið annan titil í kvöld.
ÍBV unnu bikarinn á dögum og geta unnið annan titil í kvöld. Vísir/Valli
Þrjú félög eiga möguleika á því að verða deildarmeistari í Olís deild karla en lokaumferðin fer fram í kvöld.

ÍBV, Selfoss og FH eru öll jöfn að stigum og geta einnig verið það áfram eftir leiki kvöldsins. Líklegast er því að innbyrðisviðureignir muni ráða sætum liðanna.

ÍBV kemur í heimsókn til Fram í Safamýri, Selfoss fær botnlið Víkinga í heimsókn og FH spilar við nágranna sína úr Stjörnunni í Garðabæ. Allt eru þetta leikir sem menn búast fyrirfram við öruggum sigrum hjá ÍBV, Selfoss og FH.

Vinni öll liðin þá verður ÍBV deildarmeistari en Eyjamenn þurfa að hafa FH með í pakkanum til að komast upp fyrir Selfoss.

ÍBV og Selfoss eru jöfn í innbyrðisleikjum en Selfoss yrði ofar á betri heildarmarkatölu verði bara þau lið jöfn.

Eyjamenn vilja hinsvegar fá FH með í pakkann því þá mun átta marka sigur ÍBV á FH síðan í febrúar skila liðinu deildarmeistaratitlinum.

Á endanum gæti það farið svo að úrslit leiks FH-ingar muni ráða því hvort ÍBV eða Selfoss verður deildarmeistari. ÍBV og Selfoss gætu þannig verið búin að klára sína leiki snemma og komin með augun á Ásgarði þar sem Stjörnumenn gætu mögulega staðið eitthvað í FH-liðinu.

Eina undartekning á því væri ef ÍBV vinnur átta marka stærri sigur á Fram en Selfoss vinnur á Víkingum. Þá myndi ÍBV taka deildarmeistaratitilinn á betri heildarmarkatölu en Selfoss.



Röð liðanna verður ef ...

... öll liðin vinna

1. ÍBV 34 stig

2. Selfoss 34 stig

3. FH 34 stig

... bara ÍBV og FH vinna

1. ÍBV 34 stig

2. FH 34 stig

3. Selfoss 32 eða 33 stig

... bara ÍBV og Selfoss vinna*

1. Selfoss 34 stig

2. ÍBV 34 stig

3. FH 32 eða 33 stig

... bara FH og Selfoss vinna

1. Selfoss 34 stig

2. FH 34 stig

3. ÍBV 32 eða 33 stig

... öll liðin tapa

1. ÍBV 32 stig

2. Selfoss 32 stig

3. FH 32 stig



* ÍBV þarf að vinna átta mörkum stærri sigur en Selfoss til að ná efsta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×