Erlent

Ákærður fyrir morðið á Justine Damond

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mohamed Noor.
Mohamed Noor. Vísir/AFP
Saksóknarar í Bandaríkjunum hafa ákært lögreglumanninn Mohamed Noor fyrir að hafa skotið hina áströlsku Justine Damond til bana í bandarísku borginni Minneapolis í fyrra. BBC greinir frá.

Sjá einnig: Skotin til bana á náttfötunum eftir að hafa hringt á lögreglu

Damond var skotin til bana í júlí síðastliðnum eftir að hafa hringt á neyðarlínuna. Í símtalinu tilkynnti hún um nauðgun sem hún taldi að væri að eiga sér stað í húsasundi nærri heimili hennar.

Þegar lögregluþjóna bar að garði skömmu síðar var Damond komin út í húsasundið, íklædd náttfötum. Þar var hún var skotin margsinnis af lögregluþjóninum Mohamed Noor. Noor gaf sig fram við lögreglu og hefur nú verið ákærður fyrir bæði morð og manndráp af gáleysi.

Saksóknari Hennepin-sýslu, Mike Freeman, sagði á blaðamannafundi að ekkert hafi gerst á vettvangi sem réttlæti viðbrögð lögreglumannsins. Verði Noor fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi fyrir morð auk 10 ára fangelsis fyrir manndráp.

Málið vakti mikla umræðu og reiði í Ástralíu á sínum tíma en Damond var áströlsk. Forsætisráðherrann Malcolm Turnbull lýsti því sem „óútskýranlegu“ og „hneykslanlegu drápi“.

Justine Damond, var 40 ára gömul þegar hún var skotin til bana í Minneapolis í júlí í fyrra.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×