Umfjöllun og viðtöl: Grótta - Fjölnir 30-35 | Fjölnismenn kvöddu með sigri

Skúli Arnarsson í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi skrifar
Kristján Örn skoraði sjö mörk fyrir Fjölni í kvöld.
Kristján Örn skoraði sjö mörk fyrir Fjölni í kvöld. vísir/anton
Það fór fram fremur skrýtinn leikur í Hertz-höllinni í kvöld þegar Fjölnir lagði heimamenn í Gróttu með 35 mörkum gegn 30. Það sást greinilega í kvöld á leik liðanna að hvorugt liðið hafði að einhverju að keppa en Grótta tryggði sæti sitt í síðustu umferð á kostnað Fjölnis sem kemur til með að leika í Grill 66 deildinni næsta vetur.

Það var lítið um varnarleik í byrjun leiks og markvarslan var lítil sem engin. Eftir um 15 mínútna leik var staðan 10-12 Fjölnismönnum í vil. Fjölnir spiluðu mjög grimma vörn og náðu að hægja á sóknarleik Gróttumanna með þvi að brjóta á skyttum Gróttu.

Það losaði um Svein Jose Rivera á línunni sem skoraði fimm mörk í dag. Markmenn beggja liða náðu aðeins að finna taktinn síðari part fyrri hálfleiksins og voru bæði lið að fá mikið af hraðaupphlaupsmörkum. Í hálfleik var staðan 18-19 fyrir Fjölni eftir að Kristján Örn Kristjánsson kom þeim yfir rétt fyrir hlé.

Síðari hálfleikur var mjög svipaður fyrri hálfleiknum, lítið um varnir og mikið af mörkum. Fjölnismönnum gekk þó betur að loka á Gróttu og voru alltaf skrefinu á undan. Á fimm mínútna kafla fyrir miðjan síðari hálfleikinn skoruðu Fjölnismenn fimm mörk í röð og komust sex mörkum yfir, 21-27.

Gróttumenn voru mjög kærulausir í seinni hálfleik og töpuðu boltanum sókn eftir sókn með kæruleysislegum sendingum sem endaði yfirleitt með hraðaupphlaupi í bakið. Grótta náði að minnka muninn niður í þrjú mörk í stöðunni 27-30 en þá gáfu Fjölnismenn aftur í og enduðu á að landa fimm marka sigri, 30-35.

Afhverju vann Fjölnir?

Fjölnir mættu einfaldlega grimmari til leiks og virtust hafa mun meira gaman að því sem þeir voru að gera. Sóknarleikurinn gekk mjög smurt og vörnin var þokkaleg í síðari hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Sveinn Jóhannsson var frábær í liði Fjölnis í dag en hann skoraði sjö mörk úr átta skotum og var mjög góður í Fjölnisvörninni í dag. Kristján Örn Kristjánsson var einnig flottur í liði Fjölnismanna en hann skoraði sjö mörk úr átta skotum og Bjarki Lárusson skoraði fimm mörk og fiskaði tvö víti.

Í liði Gróttumanna var Gunnar Valdimar Johnsen atkvæðamestur með 6 mörk, Sveinn Jose Rivera og Pétur Hauksson fylgdu honum eftir með fimm mörk hvor.

Hvað gekk illa?

Það var augljóst að Gróttumenn voru saddir í dag eftir að hafa tryggt sæti sitt í deildinni í síðustu umferð og það vantaði ákveðni og einbeitingu í lið Gróttu í dag. Þeir voru með mikið af kæruleysislega töpuðum boltum og Fjölnismenn löbbuðu í sífellu í gegnum vörn Gróttumanna.

Hvað gerist næst?

Tímabilið hjá báðum þessum liðum er búið í vetur og verður spennandi að fylgjast með þeim næsta vetur. Fjölnir leikur í Grill 66 deildinni og stefna á að fara beinustu leið upp aftur á meðan Grótta spilar í Olís deildinni og ætla sér líklega stærri hluti en þeir afrekuðu í vetur.

Arnar: Vorum miklu betri í dag

„Ég er ánægður að hafa náð í sigur í dag. Við lögðum upp með það að hafa bara gaman í dag fyrst að leiktíðin var farin frá okkur og mér fannst það takast vel í dag,“ sagði Arnar Gunnarsson þjálfari Fjölnis strax eftir leikinn.

 Arnar var ánægður með frammistöðuna í kvöld „Við vorum bara miklu betri í dag. Við spiluðum mjög vel, lögðum okkur fram og ég held að það sé rétt hjá mér að við séum að ná næstum því 40 brotnum fríköstum, sem er búinn að vera okkar Akkílesarhæll í vetur.“

Fjölnisliðinu hefur vantað sáralítið upp á í að vera með mun fleiri stig en þeir enda tímabilið með.

„Spilamennskan í vetur hefur verið svolítið upp og ofan. Það var verið að tilkynna mér það að það eru 9 leikir í vetur sem við erum að vinna á 50 mínútu og hefði okkur tekist að klára þá leiki hefðum við verið með 10 stigum meira. Það sýnir að við erum ekki bara inn í öllum leikjum heldur eigum góðan möguleika á sigri en einhverra hluta vegna náum við því ekki. Það hlýtur bara að vera einhversskonar reynsluleysi hjá okkur.“

Veturinn hefur verið skrýtinn hjá Fjölnisliðinu en í október kom tilkynning frá stjórn félagsins að Arnar hafi látið af störfum en sú tilkynning var síðar dregin til baka.

„Þessi vetur var þungur af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekkert að fara dýpra í, en það er komin ný stjórn sem ég vænti mikils af. Það þarf bara að vinna áfram að því sem við höfum verið að gera undanfarin ár og trúa og treysta á það. Það er mikill efniviður í þessu félagi og við ættum að fara beint upp aftur ef rétt er haldið á spöðunum,“ sagði Arnar að lokum

 

Kári: Auðvitað sár að tapa síðasta leiknum

 „Þetta var svolítið sérstakur leikur, bæði lið höfðu ekki að miklu að keppa og það endurspeglaði leikinn svolítið. Það var fátt um varnir, mörg mistök og stemningin í húsinu eftir því. En auðvitað er ég sár að hafa tapað síðasta leiknum,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, eftir leikinn í kvöld.

Kára fannst spennustig sinna leikmanna ekki vera rétt stillt í kvöld. „Það er kannski ekkert óeðlilegt að það sé spennufall hjá leikmönnum að hafa tekist að tryggja áframhaldandi veru okkar í deild þeirra bestu í síðustu umferð.“

„Það hafa orðið miklar breytingar á liðinu okkar mánuð fyrir mánuð og jafnvel viku fyrir viku. Við erum oft að byggja upp nýtt lið á tímabilinu. En ég er gífurlega ánægður með að tryggja Olís deildarsæti á næstu leiktíð og það er markmið sem við getum verið mjög stoltir af.“

„Við þurfum að halda í góðan kjarna og bæta inn réttu mönnunum. Svo þurfum við að ná góðu sumri en við náðum því ekki síðasta sumar en við vorum ekki komnir með fullmótað lið fyrr en í september,“ sagði Kári þegar hann var spurður hvað Grótta þurfa að gera til að geta barist um úrslitakeppnissæti á næsta tímabili.

Andri Berg: Þetta lið fer beint upp aftur.

„Ég er sáttur með að vinna þennan leik. Það var auðvitað ekkert undir en við ætluðum að reyna að enda mótið eins og menn og sýna að það væri eitthvað í okkur spunnið. Ég hefði viljað spila betri vörn í kvöld en það er eins og það er,“ sagði Andri Berg Haraldsson, leikmaður Fjölnis.

Andra fannst augljóst að það væri lítið undir á spilamennsku liðanna í dag.

„Þetta byrjaði frekar soft og það var skorað úr öllum sóknum til að byrja með. Við náðum aðeins að þétta okkar leik, fengum flotta markvörslu og þá náðum við að sigla fram úr.“

Andra fannst jákvæðu punktarnir í vetur ekki næstum nægilega margir.  

„Spilamennskan í vetur var mjög kaflaskipt og það var í mörgum leikjum þar sem við brotnuðum niður á mikilvægum augnablikum. Það er kannski asnalegt að segja það eftir að hafa aðeins unnið 3 leiki af 22 en það var margt jákvætt í vetur, þeir voru bara ekki næstum því nægilega margir.“

„Við þurfum bara að halda áfram að bæta okkur og halda áfram að æfa. Það eru margir rosalega efnilegir leikmenn í liðinu og þetta lið fer beint aftur upp, það er ekki spurning,“ sagði Andri að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira