Viðskipti innlent

Íslendingar fá 25 milljarða til jarðvarmaverkefna í Kína

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá undirritun samningsins í Gamla bíó.
Frá undirritun samningsins í Gamla bíó. Mynd/Arctic Green Energy
Arctic Green Energy og kínverska fyrirtækið Sin­opec Green Energy Geot­hermal hafa undirritað samning um fjár­mögn­un er nemur 250 milljónum Banda­ríkja­dala, eða um 25 milljörðum íslenskra króna. Fjármagnið fá fyrirtækin frá Þróunarbanka Asíu (ADB) til áframhaldandi þróunarverkefna í Kína.

Samstarfssamningurinn var undirritaður í Gamla bíó í dag en um er að ræða stærstu fjárfestingu Íslendinga í Kína. Í tilkynningu kemur auk þess fram að yfirlýst markmið beggja aðila sé að draga úr loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda vegna húshitunar með því að skipta mengandi orkugjöfum á borð við kolaorku út fyrir náttúrulegan jarðvarma. Upphitun húsa með kolum er ein helsta orsök loftmengunar í Kína.

„Fjármagnið frá Þróunarbanka Asíu gerir AGE og SGE kleift að eflast í baráttunni við loftmengun, og um leið að veita íbúum Kína þarfa og umhverfisvæna hitaveitu,“ var haft eftir Hauki Harðarsyni, stjórnarformanni AGE.

Arctic Green Energy Corporation er íslenskt félag sem stofnað var til að þróa og reka umhverfisvænar jarðhitaveitur í Asíu. Sinopec Green Energy er í eigu Arctic Green Energy og kínverska félagsins Sinopec sem er þriðja stærsta fyrirtæki heims. SGE er stærsta jarðhitaveita heims með 328 hitaveitustöðvar í um 40 borgum og sýslum í Kína, segir í tilkynningu.

Greint var frá samstarfssamningi Orkustofnunar, Arctic Green Energy og Sinopec  um samvinnu og samráð á sviði jarðvarmsrannsókna haustið 2016.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×