Körfubolti

Flautukarfa Kára vekur heimsathygli: „Hvort er betra, lýsingin eða karfan?"

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lygileg karfa Hauka-mannsins unga hefur vakið heimsathygli.
Lygileg karfa Hauka-mannsins unga hefur vakið heimsathygli. vísir/anton
Ótrúleg flautukarfa Kára Jónssonar sem tryggði Haukum sigur gegn Keflavík í gærkvöldi í 8-liða úrslitum Domins-deildarinnar hefur ekki bara vakið athygli hér á Íslandi heldur eru erlendir miðlar einnig byrjaðir að sýna frá körfunni.

Karfa Kára var í raun algjörlega lygileg þar sem hann skoraði frá sínum eigin vallarhelming. Þetta var ekki eina sem hann gerði á lokakaflanum því skömmu áður hafði hann skorað úr þremur vítaskotum svo hann skoraði 6 stig á 3,4 sekúndum.

Margir miðlar ytra hafa sýnt þessu svakalega skoti áhuga. Deadspin, sem rúmlega ein milljón manna fylgir á Twitter, birti meðal annars myndbandið á vef sínum þar sem einnig er komið inn á ótrúlega lýsingu Svala Björgvinssonar og Guðjóns Guðmundssonar.

SB Nation, bandarísk íþróttasíða, birtir þetta einnig á miðli sínum þar sem einnig er komið inn á lýsingu þeirra félaga af þessu magnaða atviki.

Hin vinsæla stöð, Yahoo Sports, er enn ein fréttaveitan sem fjallar um magnað skot Kára og spyr lesendur sína á Twitter hvort hafi verið betra; lýsing þeirra félaga eða karfan sjálf?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×