Enski boltinn

Stungið upp á víkingaklappinu til að rífa upp stemmninguna á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er oft svolítið rólegt í stúkunni á Old Trafford. Myndi íslenska víkingaklappið breyta því?
Það er oft svolítið rólegt í stúkunni á Old Trafford. Myndi íslenska víkingaklappið breyta því? Vísir/Getty
Forráðamenn Manchester United leita nú leiða til að fá meiri stemmningu á heimaleiki Manchester United á Old Trafford.

Það er fullt af fólki sem mætir á völlinn á leiki liðsins en það vantar töluvert upp á að þar sem sami stuðningurinn við liðið og á árum áður.

Það þykir vera alltof „hljótt“ og alltof rólegt á áhorfendapöllunum og það er ekki af því að Manchester United liðið er að svæfa stuðningsmenn sína með varnarsinnuðum leik. Vandamálið liggur í almennu stemmningsleysi á áhorfendapöllunum.

Það virðist vera sem að „rækjusamlokurnar“ sem Roy Keane talaði um fyrir löngu síðan séu nú búnar að drepa niður alla stemmningu á vellinum. En hvað er til ráða?

James Waterhouse tók forráðamenn Manchester United á orðinu og setti saman lista með tillögum til úrbóta á BBC. Þar kennir ýmissa grasa.

Það sem okkur Íslendingum þykir fróðlegast að sjá á þessum lista með fimm tillögum er eflaust tillaga númer fjögur.





Þegar Waterhouse var búinn að leggja til að Old Trafford taki upp klappstýrur, vuvuzela-lúðurinn og bílastæðapartý fyrir utan leikvanginn þá var komið að því að mæla með því að stuðningsmenn Manchester United fari að taka upp íslenska víkingaklappið á leikjum liðsins í leikhúsi draumanna.

„Víkingaklappið var ekki aðeins eitt af eftirminnilegustu ímyndum Evrópukeppninnar í Frakklandi heldur hjálpaði það líka íslenska landsliðinu að komast í átta liða úrslitin,“ skrifar James Waterhouse og bætir við:

„Víkingaklappið hjálpaði líka íslensku stuðningsmönnunum að vera tilefndir sem stuðningsmenn ársins hjá FIFA og næstum því tíu prósent íslensku þjóðarinnar tók þátt í víkingaklappinu þegar íslenska landsliðið kom heim frá EM.“

Það má sjá allar tillögurnar og umfjöllun um þær með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×