Erlent

Sprengjumaðurinn í Texas skildi eftir sig myndband

Gunnar Reynir Valþórsson og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Frá rannsókn lögreglu í Austin í vikunni.
Frá rannsókn lögreglu í Austin í vikunni. Vísir/AFP
Maðurinn sem grunaður er um að hafa staðið fyrir sprengjuherferðinni í Austin í Texas á dögunum, sem sprengdi sig í loft upp í gær, skildi eftir sig myndband þar sem hann játar glæpi sína. Þetta segir lögreglustjórinn í borginni en myndbandið virðist hafa verið tekið upp á síma nokkrum klukkustundum áður en lögregla komst á sporið og hóf eftirför sem endaði með því að árásarmaðurinn, hinn 23 ára gamli Mark Conditt, framdi sjálfsmorð.

Lögreglan segir að í myndbandinu ræði hann um sprengjurnar sem hann bjó til og muninn á hverri og einni. Ekkert kemur fram sem bendir til kynþáttahaturs eða tengsla við hryðjuverkahópa en lögregla segir að svo virðist sem áföll í einkalífi Conditt hafi orðið kveikjan að herferðinni.

Fimm sprengjur voru sprengdar með nokkurra daga millibili og stóð yfir umfangsmikil leit að árásarmanninum, sem nú hefur komið í ljós að var téður Conditt. Hann lést eftir að hafa sprengt sprengju á þjóðvegi í grennd við Austin. Í frétt BBC segir enn fremur að Conditt hafi búið um 30 kílómetra sunnan við Austin. Þá gáfu yfirvöld það út við rannsókn málsins að árásarmaðurinn hafi haft mikla þekkingu á sprengiefnum og sprengjum.

Fjórar af árásunum áttu sér stað í Austin, höfuðborg Texas. Þremur sprengjum var komið fyrir við útidyrahurðir hús og einni hafði verið komið fyrir við göngustíg. Í fyrradag særðist starfsmaður FedEx í San Antonio, þegar pakki sem flytja átti til Austin sprakk.


Tengdar fréttir

Sprengjumaðurinn í Texas talinn látinn

Maðurinn sem grunaður er um að hafa framið röð sprengjuárása í Austin í Bandaríkjunum eða grennd við borgina er látinn eftir umfangsmikla lögregluaðgerð.

Sprengjufaraldur í Texas

Tveir eru særðir eftir sprengingu í borginni Austin í Texas-ríki Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×