Viðskipti innlent

Valgerður ráðin framkvæmdastjóri Framtíðarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Valgerður Halldórsdóttir.
Valgerður Halldórsdóttir. Mynd/Framtíðin
Valgerður Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjártæknifyrirtækisins Framtíðarinnar. Hún hefur mikla reynslu af stjórnun og rekstri hjá frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækjum, og starfaði meðal annars áður hjá Plain Vanilla sem þróunarstjóri ásamt því að bera ábyrgð á viðskiptaþróun félagsins. Hjá Framtíðinni mun Valgerður sinna daglegum rekstri félagsins og bera ábyrgð á stefnumótun, viðskiptaþróun og markaðsmálum, að því er segir í tilkynningu frá Framtíðinni.

Valgerður kemur til Framtíðarinnar frá Visku, þar sem hún starfaði sem framkvæmdastjóri. Hún var áður í framkvæmdastjórn Plain Vanilla og stýrði skrifstofu félagsins í New York. Þá leikstýrði hún og framleiddi kvikmyndina The Startup Kids árið 2012, ásamt því að stofna tvö önnur sprotafyrirtæki og framleiða borðspil. Valgerður hefur setið í stjórn Saga Film frá árinu 2015. Hún lauk BSc námi i iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2008.

„Það er mikill fengur fyrir okkur hjá Framtíðinni að fá Valgerði til liðs við okkur. Hún hefur gríðarlega reynslu af nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi, bæði hér á Íslandi og erlendis, og sú reynsla mun nýtast vel í þeim spennandi verkefnum sem framundan eru, en við ætlum að vera í fararbroddi varðandi nýtingu tæknilausna við fjármálaþjónustu,“ er haft eftir Hlíf Sturludóttur, stjórnarformanni Framtíðarinnar, um ráðningu Valgerðar.

Framtíðin er fjártæknifyrirtæki sem býður upp á námslán, húsnæðislán og almenn lán. Félagið er í eigu sjóðs í stýringu hjá GAMMA og hefur hlotið skráningu sem lánveitandi hjá Fjármálaeftirlitinu í samræmi við lög um fasteignalán til neytenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×