Erlent

Trump og Biden deila um hver myndi lemja hvern

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Joe Biden.
Donald Trump og Joe Biden. Vísir/Getty
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, og Donald Trump, forseti, virðast nú metast um það hvor þeirra myndi vinna slagsmál þeirra á milli. Biden sagði á þriðjudaginn að hann myndi berja Trump „í klessu“ ef þeir væru í menntaskóla, vegna ummæla forsetans um konur. Trump svaraði Biden á Twitter í morgun og sagði að hann myndi berja Biden og að Biden myndi gráta allan tímann ef þeir færu í slag.

Trump sagði Biden vera að reyna að haga sér eins og nagli en í raun væri hann aumur maður, líkamlega og andlega.

„Þrátt fyrir það hótar hann mér, í annað sinn, með líkamlegu ofbeldi. Hann þekkir mig ekki, en hann myndi fara hratt í jörðina, grátandi allan tímann. Ekki hóta fólki Joe!“ skrifaði Trump.

Biden var staddur í Háskóla Miami á þriðjudaginn þar sem hann tók þátt í samkomu vegna „It‘s On Us“ átaksins sem snýr að því að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi í háskólum. Þar ræddi Biden ummæli sem Trump hefur látið falla um konur og þá sérstaklega um „Access Hollywood“ myndbandið fræga þar sem Trump, árið 2005, stærði sig af því að geta „gripið í píkur“ kvenna í skjóli frægðar sinnar.



Sjá einnig: Trump stærði sig af því að komast upp með að káfa á konum



„Þeir spurðu mig hvort ég vildi taka þátt í rökræðum við þennan herramann og ég sagði nei,“ sagði Biden á þriðjudaginn. „Ef við hefðum verið í menntaskóla hefði ég farið með hann á bak við íþróttahús og lamið hann í klessu.“



Biden gaf einni lítið fyrir afsökun Trump um að um „búningsklefa-tal“ hefði verið að ræða.

„Ég hef verið í mörgum búningsklefum allt mitt líf. Ég er frekar góður íþróttamaður. Hver sem talaði svona var yfirleitt feitasti, ljótasti tíkarsonurinn í klefanum.“

Þetta er svipað og það sem Biden sagði í kosningabaráttunni 2016 þar sem hann tók þátt í kosningafundi Hillary Clinton.

Sjá einnig: Trump „myndi elska“ að slást við Biden

Trump rifjaði þau ummæli upp nýverið þar sem hann var staddur á kvöldverði í Washington DC.

„Munið þið þegar hann sagði: Ég ætla að fara með þig á bak við hlöðu? Treystið mér, ég myndi lemja hann í klessu. Hann yrði auðveldur,“ sagði Trump í byrjun mánaðarins. „Heldur maður sem lætur frá sér svo svívirðilegar yfirlýsingar, virkilega að hann geti orðið forseti?“

Biden þótti líklegur til að bjóða sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir síðustu forsetakosningar og hefur hann sömuleiðis haldið þeim möguleika opnum að bjóða sig fram gegn Trump í kosningunum 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×