Enski boltinn

United leysir Zlatan undan samningi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Zlatan Ibrahimovic vann Evrópudeildina með United síðasta vor.
Zlatan Ibrahimovic vann Evrópudeildina með United síðasta vor. Vísir/Getty
Zlatan Ibrahimovic hefur fengið leyfi til þess að yfirgefa Manchester United óski hann þess. BBC greinir frá þessu.

Ibrahimovic kom til United frá Paris Saint-German sumarið 2016 og var einn af lykilmönnum liðsins á síðasta tímabili áður en hann meiddist illa í mars 2017. Hann yfirgaf félagið þá um vorið en snéri aftur á Old Trafford síðasta haust.









Svíinn spilaði sinn fyrsta leik eftir endurkomuna í nóvember þegar hann kom inn á fyrir Anthony Martial í sigri á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni. Hann skoraði svo sitt fyrsta mark á tímabilinu í 2-1 tapi fyrir Bristol í 8-liða úrslitum deildarbikarsins. Hann hefur ekki spilað fyrir United síðan á annan í jólum.

Undanfarið hefur verið orðrómur í gangi um að Zlatan gæti tekið landsliðsskóna af hillunni og farið með sænska liðinu á HM.

Manchester United hefur ekki gefið neitt út varðandi Zlatan en heimildir BBC segja að knattspyrnustjórinn Jose Mourinho hafi ákveðið að leysa Zlatan undan samningi. Enskir fjölmiðlar segja líklegt að Zlatan sé á leiðinni í MLS deildina og muni spila fyrir LA Galaxy.

Kevin Baxter, fréttamaður hjá L.A. Times, sagði á Twitter síðu sinni að Ibrahimovic sé búinn að skrifa undir hjá Galaxy. Á Twittersíðu Baxter má einnig sjá myndir af Heimi Hallgrímssyni og íslenskum landsliðsmönnum, Baxter var greinilega á æfingu hjá íslenska landsliðinu sem er í Kaliforníu um þessar mundir. 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×