Sport

Kvennalandsliðið spilar ekki í nýju treyjunum fyrr en á næsta ári

Birgir Olgeirsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í "gömlu“ landsliðstreyjunum.
Íslenska kvennalandsliðið í "gömlu“ landsliðstreyjunum. vísir/eyþór
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mun klára undankeppni Heimsmeistaramótsins í „gömlu“ landsliðstreyjunum.

Knattspyrnusamband Íslands afhjúpaði nýja landsliðstreyju fyrir viku síðan fyrir landslið kvenna og karla. Karlalandsliðið mun leika í nýju treyjunum í æfingarleikjum á næstu mánuðum og mun klæðast þeim á Heimsmeistaramótinu sem hefst í Rússlandi í júní næstkomandi.

Kvennalandsliðið stendur í ströngu í sinni undankeppni fyrir Heimsmeistaramótið í Frakklandi á næsta ári. Ísland er í C-riðli í undankeppninni og á fimm leiki eftir og mun klára þá leiki í „gömlu“ landsliðstreyjunni. Þorvaldur Ingimundarson, sem starfar hjá KSÍ, sagði þetta vera viðmið sem knattspyrnusambandið vinnur eftir, það er að landsliðið klárar keppni í þeirri treyju það klæddist þegar það hóf leik.

Landslið kvenna leikur tvo leiki í undankeppninni í apríl næstkomandi. Annar þeirra er gegn Slóveníu ytra 6. apríl og gegn Færeyjum 10. apríl. Liðið leikur svo aftur við Slóveníu hér heima 11. júní næstkomandi en síðustu tveir leikirnir eru gegn Þýskalandi og Tékklandi 1. og 4. september.

Liðið mun því ekki leika í nýju treyjunum fyrr en á næsta ári, annað hvort þá á Heimsmeistaramótinu í Frakklandi, komist liðið þangað, eða þá í undankeppni fyrir Evrópumótið.

Treyjan er þó komin í sölu í kvennasniði í verslunum hér á landi. Til að mynda er hún fáanleg í Jóa Útherja og verður væntanleg í verslanir Útilíf í næstu viku. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×