Fótbolti

43 marka tvíeyki ekki með Argentínu á HM

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mauro Icardi fagnar marki með Internazionale.
Mauro Icardi fagnar marki með Internazionale. Vísir/Getty
Landsliðsþjálfari Argentínu, Jorge Sampaoli, telur ólíklegt að markahrókarnir Paulo Dybala og Mauro Icardi fái að fara með á HM í Rússlandi þar sem Argentína mætir Íslandi í fyrsta leik.

Sampaoli valdi hvorki Dybala né Icardi í hópinn sem mætir Ítölum og Spánverjum í vináttulandsleikjum í þessu landsleikjahléi og sagði það verða erfitt fyrir tvíeykið að koma sér inn í hópinn fyrir HM.

Hann sagði þó að það væri ekki vegna skorts á hæfileikum heldur vegna þess að þeir passi ekki inn í liðið.

„Það er erfitt fyrir Dybala að venjast skipulaginu hjá okkur,“ sagði Sampaoli.

„Við gátum ekki bætt úr frammistöðum hans og þurftum að meta það hvort þeir leikmenn sem eru í hópnum séu betri en Paulo eða hvort við eigum að halda áfram að reyna að bæta frammsitöðu hans.“

Dybala hefur skorað 21 mark fyrir Juventus í vetur en á aðeins 12 landsleiki að baki fyrir Argentínu. Icardi hefur sett 22 mörk í 26 leikjum fyrir Inter Milan á tímabilinu en bara náð fjórum landsleikjum á tæpum fimm árum.

„Icardi er í svipaðri stöðu og Dybala. Hann náði ekki að skila frammistöðum sínum með Inter inn í argentíska landsliðið.“

„Við höfum ekki nægan tíma til þess að aðlaga þá að liðinu. Ég verð að einbeita mér að frammistöðum leikmanna á vellinum fyrir landsliðið,“ sagði Jorge Sampaoli.

Argentína mætir Ítalíu í vináttulandsleik í kvöld og Spáni á þriðjudaginn. Liðið mætir svo Íslandi á HM þann 16. júní í Moskvu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×