Innlent

Mál starfsmanns barnaverndar: Verknaðarlýsingar kærenda í flestum tilfellum þær sömu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir manninum.
Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir manninum. vísir/hanna
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur, sem grunaður er um kynferðisbrot gegn nokkrum einstaklingum þegar þeir voru á aldrinum sex til nítján ára skuli sæta gæsluvarðhaldi til 13. apríl á grundvelli almannahagsmuna.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í janúar en að því er fram kemur í úrskurði héraðsdóms hafa sjö einstaklingar kært manninn fyrir kynferðisbrot. Er hann grunaður um að hafa beitt þá grófu kynferðisofbeldi en um sé að ræða börn sem hafi af ýmsum ástæðum gist heima hjá manninum, eða hann á að hafa brotið gegn þeim á ferðalögum innanlands sem og í útlöndum.

Að mati lögreglu eru framburðir kærendanna sjö trúverðugir. Fyrir utan þrjá þeirra hafi þeir ekki borið saman bækur sínar heldur gefið sig fram undir rannsókn málsins.

„Málsatvik allra málanna eru keimlík, þ.e. að kærði hafi unnið sér inn traust brotaþola, látið þá sofa upp í rúmi hjá sér og þar hafi hann brotið gegn þeim í flestum tilfellum. Þá séu verknaðarlýsingar í kæruskýrslum í flestum tilfellum þær sömu, þ.e. fróun og getnaðarlimur í endaþarm, nema í tilfelli eins brotaþola.  

Í ljósi þessa og þess að brotaþolar þekkist ekki eða hafi ekki verið í samskiptum áður en kærurnar hafi verið lagðar fram telji lögregla ekki tilefni til að draga ásakanir brotaþola gegn kærða í efa.  

Þá hafi kærði sjálfur lýst því að hann hafi látið börnin sofa upp í rúmi hjá sér og hafi jafnframt lýst sömu ferðalögum og brotaþolar, en brotaþolar hafi lýst því að kærði hafi brotið gegn þeim á þeim ferðalögum. Styðji framburður kærða því framburði brotaþola.  Þá séu vitni í þremur málanna,“ segir í úrskurði héraðsdóms.

Ljóst sé að meint brot hafi haft mikil áhrif á andlega líðan þeirra sem kært hafa manninn. Þá sé um að ræða sérstaklega gróf kynferðisbrot gegn börnum frá sex ára aldri sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×