Körfubolti

Ívar: Punglausir dómarar

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Ívar rúmlega ósáttur með dómarana í kvöld.
Ívar rúmlega ósáttur með dómarana í kvöld. vísir/bára
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, var hundfúll út í dómarana eftir leik Hauka og Keflavíkur í kvöld sem Haukarnir töpuðu. Tapið þýðir að staðan er 2-1 í einvíginu fyrir Haukum og nú þurfa liðin að mætast aftur í Keflavík.

„Við vorum með leikinn í okkar höndum í þriðja og fjórða leikhluta. Við byrjum svo að taka vitlausar ákvarðanir og léleg þriggja stiga skot. Við hefðum mátt vera búnir að gera útum leikinn miklu fyrr,“ sagði ósáttur Ívar Ásgrímsson.

Umdeilt atvik átt sér stað á lokasekúndum leiksins er brotið var á Kára Jónssyni, hetju síðasta leiks, en hann vildi fá þrjú tækifæri af vítalínunni en fékk þess í stað bara tvö skot og þá þegar tvær sekúndur voru eftir og munurinn þrjú stig.

Ívar var ósáttur með þetta sem og frammistöðu dómaranna.

„Ég sá bara pungleysi dómara. Þeir þorðu ekki að taka neitt á Keflvíkingum allan leikinn. En sama má kannski segja um okkur. Við vorum ekki nógu harðir á móti,“ sagði Ívar og taldi að hans menn yrðu að líta í eigin barm frekar en að kenna dómurum um tapið.

Hann segir Hauka staðráðna að klára einvígið á mánudagskvöldið er Haukar heimsækja Keflavík.

„Höfum unnið þrjá leiki í vetur og ætlum að vinna þann fjórða á mánudaginn. Við þurfum að undirbúa okkur vel í það. Vorum ekki nógu grimmir í kvöld og þurfum að vinna í því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×