Erlent

Franski lögreglumaðurinn látinn af sárum sínum

Kjartan Kjartansson skrifar
Franska lögreglan gerði húsleit í íbúðarhúsnæði í Carcassonne eftir hryðjuverkaárásina í gær.
Franska lögreglan gerði húsleit í íbúðarhúsnæði í Carcassonne eftir hryðjuverkaárásina í gær. Vísir/AFP
Lögreglumaður sem fórnaði lífi sínu til að bjarga gísl úr haldi hryðjuverkamanns í stórverslun í Frakklandi í gær lést af sárum sínum. Forseti Frakklands segir lögreglumanninn hafa fallið sem hetja og að hann hafi sýnt „framúrskarandi hugrekki“.

Arnaud Beltrame, undirofursti, bauð hryðjuverkamanninum sjálfan sig í skiptum fyrir konu sem hann hélt í gíslingu í versluninni í Carcassonne í gær. Hryðjuverkamaðurinn hafði þá drepið eiganda bíls sem hann stal fyrr um daginn, sært lögreglumenn og drepið starfsmann og viðskiptavin verslunarinnar.

Hryðjuverkamaðurinn skaut Beltrame og réðst sérsveit lögreglunnar þá inn og skaut hann til bana. Særðist Beltrame lífshættulega og lést á sjúkrahúsi í nótt. Sextán aðrir særðust í morðæði hryðjuverkamannsins sem hafði krafist þess að hryðjuverkamanninum Salah Abdeslam yrði sleppt. Abdeslam stóð að hryðjuverkárásinni í París í nóvember árið 2013 sem varð 130 manns að bana.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands lýsti voðaverkunum í gær sem „íslömsku hryðjuverki“ og lofaði hugrekki Beltrame, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Hann dó fyrir land sitt. Frakkland mun aldrei gleyma hetjudáð hans, hugrekki og fórn,“ sagði Gérard Collomb, innanríkisráðherrann á Twitter þegar hann tilkynnti um dauða lögreglumannsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×