Innlent

Tveimur mönnum bjargað úr sjónum á Ströndum

Kjartan Kjartansson skrifar
Björgunarsveitarmenn björguðu tveimur mönnum sem féllu í sjóinn við Stóru-Árvík á Ströndum í morgun. Rúmlega tuttugu björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðinni auk björgunarskips frá Skagaströnd.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að björgunarsveitir hafi verið kallaðar út um klukkan hálf níu í morgun. Svo virðist sem að mennirnir hafi verið í klettum þegar annar þeirra féll í sjóinn. Hinn hafi farið honum til bjargar en einnig fallið í sjóinn.

Rúmri hálfri klukkustund eftir að útkall barst voru fyrstu björgunarmenn komnir á staðinn og fóru þeir niður að mönnunum og náðu þeim upp. Voru þeir hraktir og kaldir eftir volkið í sjónum. 

Rúmlega 20 björgunarmenn tóku þátt í aðgerðinni og voru fleiri á leið á svæðið en voru afturkallaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×