Innlent

Telur mögulegt að dómsmálaráðuneytið sé að refsa Andrési Inga

Sylvía Hall skrifar
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, veltir fyrir sér hvort dómsmálaráðuneytið hafi lagst gegn frumvarpi um lækkun kosningaaldurs vegna afstöðu Andrésar Inga Jónssonar, fyrsta flutningsmanns frumvarpsins, til vantrauststillögu á dómsmálaráðherra. Þetta kom fram í þættinum Víglínunni í dag.

Frumvarpið um að lækka kosningaaldur niður í sextán ár, sem hefur notið meirihlutastuðnings, var stöðvað í þriðju umræðu í gær eftir að andstæðingar frumvarpsins gagnrýndu að frumvarpið væri lagt fram svo stuttu fyrir sveitarstjórnarkosningar. Dómsmálaráðuneytið skilaði áliti um frumvarpið og lagðist gegn því á þeim forsendum að of skammt væri til kosninga til að gera slíka grundvallarbreytingu á lögum um kosningar nú.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði í Víglínunni að hann teldi þingmenn ákveðinna flokka hafa lagst gegn frumvarpinu vegna þess að þeir óttuðust hvernig yngsti hópur kjósenda myndi haga atkvæðum sínum. Jón Steindór var ósammála því og benti á að Andrés Ingi hefði kosið með vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra.

„Ég myndi frekar setja þetta í samhengi við það að fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Andrés Ingi Jónsson og þessi síðbúnu varnaðarorð dómsmálaráðuneytisins koma fram með mjög sterkum hætti á síðustu stigum málsins þegar það er búið að vera í meðferð lengi. Ég myndi að minnsta kosti varpa fram þeirri spurningu hvort það geti verið eitthvert samhengi þar á milli,“ sagði hann.

Atkvæðagreiðslu um frumvarpið hefur verið frestað fram yfir páska og óvíst er hvort frumvarpið nái að taka gildi fyrir komandi sveitastjórnarkosningar.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sakaði nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins um að hafa hindrað framgang frumvarpsins með málþófi í gær.


Tengdar fréttir

Meirihluti virðist fyrir því að lækka kosningaaldur í 16 ár

Síðasta umræða um lækkun kosningaaldurs til sveitarstjórna fer fram í dag. Verði frumvarpið samþykkt mun hluti elsta árgangs grunnskólanema geta kosið í vor. Ráðuneyti og stofnanir telja örðugt að framkvæma breytinguna. Samkvæmt nýju ákvæði munu 16 ára ólögráða kjósendur ekki njóta kjörgengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×