Fótbolti

Kínverjar elska „apakonunginn“ Bale

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gareth Bale er dáður af kínverskum fótboltaunnendum
Gareth Bale er dáður af kínverskum fótboltaunnendum vísir/getty
Velska landsliðið er þessar mundir í Kína þar sem liðið tekur þátt í Kínamótinu, æfingamóti með Kína, Úrúgvæ og Tékklandi.

Wales rústaði Kína 6-0 á föstudaginn og mætir Úrúgvæ í úrslitum mótsins á mánudaginn. Liðið hefur fengið höfðinglegar móttökur og þá sérstaklega einn maður Gareth Bale.

Bale skoraði þrennu í leiknum gegn Kína og varð þar með markahæsti leikmaður Wales frá upphafi. Hann hefur verið eltur á röndum hvert sem hann fer í Kína, frá því hann lenti á flugvellinum hefur hópur stuðningsmanna verið alls staðar þar sem hann kemur.

Kínverjarnir kalla Bale „Dasheng“ sem þýðir Apakonungurinn. Það er þó alls ekki niðrandi gælunafn því margir Kínverjar álíta Apakonunginn sem eins konar guð.

„Hann lítur út eins og Apakonungurinn og svo er Bale sterkur og fljótur, alveg eins og Apakonungurinn,“ sagði Cindy Tang, kínverskur aðdáandi Bale við BBC.

Hún taldi kínverska stuðningsmenn halda með Wales í úrslitaleiknum vegna Bale, en úrúgvæsku stjörnurnar Luis Suarez og Edinson Cavani hafa fengið mun minni athygli en Bale.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×