Erlent

Erdogan vill enn í ESB

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/AFP
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir ríkisstjórn sína enn stefna að inngöngu í Evrópusambandið. Þrátt fyrir miklar deilur við Evrópuríki að undanförnu. Erdogan mun funda með leiðtogum ESB í Búlgaríu á næstu dögum og verða þar rædd mörg erfið mál.

Meðal þess sem rætt verður á fundinum eru hreinsanir Erdogan í Tyrklandi eftir misheppnað valdarán um sumarið 2016. Tugum þúsunda embættismanna, dómara, kennara og öðrum hefur verið sagt upp störfum og þúsundir hafa verið handteknir. Þá hefur ríkisstjórn Erdogan farið hart fram gegn frjálsum fjölmiðlum og handtekið fjölda manna sem gagnrýnt hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Sömuleiðis verður rætt um þá kröfu Tyrkja að öðlast aðgang að Evrópu án vegabréfsáritana og deilur Tyrkja og Grikkja þar sem tyrknesk herskip hafa komið í veg fyrir leit að olíu við Kýpur.

Boyko Borisov, forsætisráðherra Búlgaríu, segist búast við mjög erfiðum fundi.

Áður en Erdogan lagði af stað til Búlgaríu í dag ræddi hann við fjölmiðla og sagði að Tyrkland myndi ekki sætta sig við hræsni og tvískynnung. Erdogan sakaði forsvarsmenn ESB um að leggja steina í götu Tyrklands.

Deilur Tyrkja og ESB hafa fært Tyrkland nær Rússlandi. Tyrkir hafa gert samkomulag um að kaupa vopn af Rússum og Rússar ætla að byggja fyrsta kjarnorkuver Tyrklands. Þá mun Vladimir Putin, forseti Rússlands, heimsækja Tyrkland í næstu viku og vera þar í tvo daga.

ESB mun í næsta mánuði birta ástandsskýrslu varðandi aðildarumsókn Tyrkja og býst sérfræðingur sem AFP fréttaveitan ræddi við að líkur á inngöngu Tyrkja í sambandið hafi í raun minnkað. Þeir standist færri skilyrði en áður vegna andlýðræðislegra aðgerða Erdogan.

Á móti saka Tyrkir ESB um að aðstoða þá ekki í því sem þeir kalla baráttu gegn hryðjuverkum, sem snýr að mestu að Kúrdum og klerksins Fethullah Gülen sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum. Erdogan hefur ítrekað sakað hann um að hafa skipulagt valdaránið misheppnaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×