Innlent

Utanríkismálanefnd fundar vegna Skripal-málsins

Birgir Olgeirsson skrifar
Utanríkismálanefnd á fundi í ráðuneytinu í dag.
Utanríkismálanefnd á fundi í ráðuneytinu í dag. Vísir
Utanríkismálanefnd var boðuð til fundar með Guðlaugi Þór Þórðarsyni í utanríkisráðuneytinu á fimmta tímanum í dag. 

Ástæðan er ákvörðun fjölda ríkja að vísa rússneskum erindrekum úr landi. Yfirvöld í Bandaríkjunum, Kanada og fjöldi annarra Evrópuþjóða tók þá ákvörðun í dag vegna taugaeitursárásarinnar á Sergei Skripal í Bretlandi í byrjun mánaðarins.



Frá ráðuneytinu rétt fyrir klukkan hálf sex í dag. Í bakgrunni sést bíll sendiherra Rússlands á Íslandi, Antons Vasiliev.Vísir/Egill
Yfirvöld á Íslandi hafa ekki tekið ákvörðun um hvort að vísa eigi rússneskum erindrekum frá Íslandi eða grípa til annarra aðgerða vegna árásarinnar á Skripal og dóttur hans. Þau liggja þungt haldin á sjúkrahúsi.

Vænta má að utanríkismálanefnd ræði það á fundi sínum í ráðuneytinu en þegar fréttastofa spurðist fyrir var óvíst hversu langur fundurinn yrði.

Noregur, Svíþjóð, Danmörk og Finnland hafa öll vísað rússneskum erindrekum úr landi, mismörgum þó.

Uppfært klukkan 17:26

Utanríkismálanefnd hefur lokið fundi sínum og þingmenn tínst út. Anton Vasiliev, sendiherra Rússlands á Íslandsi, er mættur í utanríkisráðuneytið til fundar við ráðherra utanríkismála, Guðlaug Þór Þórðarson.

Má telja líklegt að ráðherra sé að tilkynna sendiherranum ákvörðun Íslands í anda þeirra sem hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa gripið til.

Uppfært klukkan 17:41

Eftirfarandi tilkynning hefur verið birt á vefsíðu ráðuneytisins.

„Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið taka þátt í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja vegna efnavopnaárásar í enska bænum Salisbury í upphafi mánaðarins. Árásin er alvarlegt brot á alþjóðalögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Efnavopnum hefur ekki verið beitt í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við árásinni hafa hingað til verið ótraustvekjandi og yfirlýsingar þeirra ótrúverðugar.

Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, mörg samstarfsríki Íslands í Atlantshafsbandalaginu, og helstu aðildarríki Evrópusambandsins hafa ákveðið að grípa til aðgerða gagnvart rússneskum stjórnvöldum. Í flestum tilvikum vísa þessi ríki rússneskum stjórnarerindrekum úr landi.

Af hálfu Íslands felast aðgerðirnar í því að öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verður frestað um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í Rússlandi á komandi sumri.

Eftir að hafa borið ákvörðun ríkisstjórnarinnar undir utanríkismálanefnd Alþingis kallaði utanríkisráðherra sendiherra Rússlands á sinn fund nú síðdegis og greindi honum frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar.“


Tengdar fréttir

„Auðvitað er þetta kalt stríð“

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, á ekki von á því að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, muni bregðast af krafti við ákvörðun ríkja Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada að vísa rússneskum erindrekjum úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×