Skoðun

Enn einn draugurinn

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Mörg eigum við einhvers konar hulduheima þar sem við hegðum okkur með allt öðrum hætti en á vettvangi dagsins. Það er ekkert nýtt. Þegar forfeður okkar fóru í víking voru þeir undir þessum huliðshjálmi. Þess vegna hélt, til dæmis, Hrútur Herjólfsson að hann gæti gamnað sér með móður Noregskonungs án þess að það setti blett á samband hans við sína trúlofuðu konu heima á Íslandi. Donald Trump fer ekki lengra en inn í búningsherbergi til að komast undir þennan hjúp þar sem hann getur hreykt sér af því hvernig hann getur gripið kvenmannssköp hér og þar rétt eins og við ófrægu grípum okkur samloku. Svo eru það sumir sem telja að Bakkus geti veitt þessa friðhelgi.

Ef við værum peningar væru þetta okkar aflandseyjar. Þar erum við ónæm fyrir siðleysinu um sinn og finnst við því koma þaðan hvítþvegin út þó við höfum öslað aurinn.

Stór partur af pólitíkinni og viðskiptalífinu fer fram undir slíkum huliðshjúpi en svo villast þaðan innmúraðir uppvakningar í hversdagsleikanum. Eða þannig virka á mig fréttir af óhóflegum forstjóralaunum, pólitískum ráðningum og yfirgengilegri þjónustulund stjórnmálamanna við áhrifamenn til dæmis með því að þjóðnýta skuldir þeirra og passa upp á að þjóðin hafi ekki af þeim auðlindirnar. Auðvitað bregður fólki við draugsa en reynslan hefur sýnt mér að það er líka býsna fljótt að finna frið í reimleikunum. Kannski erum við farin að læra af skrímslaleiðbeiningum Gísla á Uppsölum en hann batt þær í þetta mál:

Mætirðu skrímsli máttu ei trega, maður þá vex þín neyð. Heilsaðu bara hæversklega, haltu svo þína leið.

Þetta eru fín viðbrögð þegar þú mætir Fjörulallanum en á þetta við þegar enn einn draugurinn verður á vegi þínum?




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×