Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Keflavík 72-66 | Dramatískur sigur Hauka í oddaleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Jónsson, Vilhjálmur Steinarsson og stuðningsmenn Hauka fagna í kvöld.
Kári Jónsson, Vilhjálmur Steinarsson og stuðningsmenn Hauka fagna í kvöld. vísir/bára
Haukar eru komnir áfram í undanúrslit Domino's-deildar karla eftir dramatískan sigur á Keflavík í háspennuleik á Ásvöllum í kvöld. Þetta var oddaleikur liðanna eftir stórskemmtilega rimmu liðanna síðustu daga og vikur.

Eftir kaflaskiptan leik þar sem liðin skiptust á að vera með frumkvæðið virtist Keflavík ætla að sigla öruggum sigri í hús eftir að hafa komist tólf stigum yfir þegar lítið var eftir af þriðja leikhluta. Hörður Axel Vilhjálmsson hafði sett niður þriggja stiga körfu og fiskað villu þar að auki. Með vítinu varð munurinn tólf stig og ekki að sjá á Haukum að þeir ættu svör við öflugum varnarleik Keflavíkur.

En Haukar áttu svar og það breyttist heilmikið þegar Breki Gylfason kom inn og skoraði þau stig sem sókn Hauka vantaði svo sárlega. Haukar komust á skrið, það losnaði aðeins um Kára Jónsson sem hafði verið í strangri gæslu Harðar Axels og við það komst betri gangur í sóknarleik Hauka.

Það mátti þó afar litlu muna í lokin að Haukar klúðrað leiknum. Finnur Atli Magnússon fékk þá tæknivillu fyrir að hæðast að stuðningsmönnum Keflavíkur og svo Herði Axel sem fékk þá ókeypis víti. Hann skoraði úr því og Ragnar Örn Bragason minnkaði muninn í eitt stig þegar sex sekúndur voru eftir.

Paul Anthony Jones fór svo á vítalínuna og bjargaði Finni Atla með því að nýta bæði. Ragnar fékk aftur tækifæri á þriggja stiga skoti en það geigaði. Til að strá salti í sár Keflavíkur skoraði Paul Jones af eigin vallarhelmingi um leið og leiktíminn rann út og er það í annað skipti sem slíkt gerist í þessari rimmu. Sannarlega viðeigandi endir á ótrúlegri rimmu.

Af hverju unnu Haukar?

Varnarleikur liðsins í fjórða leikhluta og innkoma Breka Gylfasonar lagði grunninn að endurkomu Hauka og sigrinum í kvöld. Ef ekki hefði verið fyrir Breka hefði Keflavík að öllum líkindum unnið þennan leik.

Hverjir stóðu upp úr?

Haukar fengu framlag frá mörgum leikmönnum en Jones og Kári voru að venju lykilmenn í liði Hauka. Finnur Atli átti frábærar rispur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Innkoma Breka skipti svo miklu máli eins og áður segir. Hjá Keflavík voru Hörður Axel og Jones bestir en sá fyrrnefndi var frábær á báðum endum vallarins og hélt Kára og þar með sóknarleik Hauka niðri lengi vel.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Hauka var ekki góður á löngum köflum og hann var litlu skárri hjá Keflvíkingum eins og sjá má á stigaskorinu í kvöld. En það má líka skrifa á að það var mikið undir í leiknum í kvöld og taugarnar þandar til hins ítrasta. Skemmtunin var þeim mun meiri.

Hvað gerist næst?

Keflavík er úr leik en Haukar eiga fyrir höndum svakalega rimmu gegn KR um sæti í lokaúrslitunum. Sú rimma hefst eftir páska. 

Haukar-Keflavík 72-66 (22-18, 11-20, 14-15, 25-13)

Haukar: Kári Jónsson 21/8 fráköst/5 stoðsendingar, Paul Anthony Jones III 17/10 fráköst, Breki Gylfason 9, Finnur Atli Magnússon 8/10 fráköst, Emil Barja 7/4 fráköst, Haukur Óskarsson 5, Hjálmar Stefánsson 5/8 fráköst, Kristján Leifur Sverrisson 0/6 fráköst.

Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson 16/4 fráköst/6 stoðsendingar, Christian Dion Jones 15/14 fráköst, Guðmundur Jónsson 14, Magnús Már Traustason 8/4 fráköst, Ragnar Örn Bragason 6, Dominique Elliott 4, Reggie Dupree 3.



Friðrik Ingi: Þetta var minn síðasti leikur sem þjálfari
Friðrik Ingi RúnarssonVísir/Ernir
Friðrik Ingi Ragnarsson hefur ákveðið að hætta að þjálfa en það tilkynnti hann eftir tap Keflavíkur gegn Haukum í úrslitakeppni Domino's-deildar karla.

Keflavík er úr leik eftir dramatískan leik á Ásvöllum í kvöld þar sem úrslitin réðust í blálokin. Keflvíkingar urðu í áttunda sæti í deildinni í vetur en voru hársbreidd frá því að slá deildarmeistara Hauka úr leik.

„Það er með ákveðnum trega að ég tilkynni að þetta er minn síðasti leikur. Ég er hættur að þjálfa. Ég var búinn að láta forráðmenn Keflavíkur vita. Ég mun koma áfram að körfuboltanum með einhverjum hætti en nú er komið að því - ég ætla að leggja flautuna á hilluna.“

Friðik Ingi segir að Keflavík hafi átt fullt erindi í lið Hauka í kvöld. „Mér fannst við ná ágætu jafnvægi í okkar leik þrátt fyrir þeirra áhlaup. En við gerðum óþarfa mistök í lokin og þeir höfðu það af. Að mínu mati erum við á pari við Hauka, eins og við erum að spila núna. Við erum klárlega eitt af fjórum bestu liðum landsins. Það er enginn munur á okkar liði og Hauka.“

„En Haukar voru búnir að vinna sér inn að eiga heimavöllinn í oddaleiknum og ég óska þeim góðs gengis í framhaldinu.“

Ívar: Ég var hræddur í stöðunni 2-0
Ívar Ásgrímsson.Vísir/Bára
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, var ánægður með að hans menn fundu þann neista sem þurfti til að hafa betur gegn Keflavík í leik liðanna í kvöld.

„Neistinn kom, sem betur fer. Kristján og Hjálmar komu inn með hann og eiga stóran hluta í þessum sigri. Við sýndum gríðarlegan karkter og þessir áhorfendur voru frábærir,“ sagði Ívar eftir leikinn.

Kári Jónsson var enn og aftur í lykilhlutverki í kvöld og hann uppskar hrós þjálfarans. „Kári er frábær körfuboltamaður. Auðvitað er maður fúll þegar menn eins og hann gera mistök - og hann gerði mistök í kvöld. En þeir eru að djöflast í honum allan leikinn og þetta er því skiljanlegt.“

Ívar vildi ekki segja hvort það hefði legið þungt á honum fyrir leik liðanna enda 20 ár síðan að deildarmeistarar féllu úr leik í 8-liða úrslitum.

„Mér fannst við alltaf spila vel í þessari rimmu. En Keflavík var að gera það líka. Það vantaði bara neista og baráttu og það kom undir lokin í kvöld. Ég vissi alltaf að Keflavík væri með gott lið. Ég var aldrei rólegur - ég var hræddur eftir að við komust í 2-0 forystu í rimmunni,“ sagði Ívar.

Kári: Breki kom með það sem vantaði
Kári í leiknum í kvöld.Vísir/Bára
Breki Gylfason var óvænt ein af hetjum leiksins þegar Haukar unnu nauman sigur á Keflavík í kvöld.

Kári Jónsson var hæstánægður eftir að hans menn í Haukum höfðu tryggt sér sæti í undanúrslitum úrslitakeppni Domino's-deildar karla eftir nauman sigur á Keflavík í oddaleik í kvöld. Meira en tvö þúsund manns voru á Ásvöllum í kvöld sem er met þar á bæ í körfuboltaleik.

„Við vorum mest tólf stigum undir í leiknum en þá kviknaði eitthvað í okkur. Við náðum að bæta okkur hægt og rólega og koma okkur aftur inn í leikinn,“ sagði Kári við Vísi eftir leikinn í kvöld.

„Kannski áttuðum við okkur á því að við myndum fara í sumarfrí en mér fannst við bregðast mjög vel við og það sýnir styrk okkar að hafa komið til baka,“ sagði Kári sem var í mikilli baráttu við Hörð Axel Vilhjálmsson í kvöld eins og í öðrum leikjum í þessari seríu.

„Hann er einn af bestu bakvörðum sem Ísland hefur átt. Hann er frábær leikmaður, bæði í vörn og sókn, og það var virkilega gaman að glíma við hann. Sem betur fer þá kannski þurfti að eyða of mikilli orku í alla þá vinnu sem hann leggur í þetta á báðum endum vallarins. Við reyndum samt hvað sem við gátum til að stöðva hann.“

Breki Gylfason kom inn af miklum krafti í lið Hauka eftir að varamenn liðsins höfðu ekki lagt mikið af mörkum. Hann skoraði afar dýrmæt stig í fjórða leikhluta þegar Haukar voru að brúa bilið.

„Breki gerði það sem hefur vantað í síðustu tveimur leikjum - að vera óhræddur. Gera bara hlutina og ekki hugsa sig tvisvar um. Hann var frábær í kvöld.“

Emil Barja.Vísri/Bára
Paul Anthony Jones.Vísir/Bára
Paul Anthony Jones.Vísir/Bára
Emil Barja.Vísir/Bára
Haukur Óskarsson.Vísir/Bára
Finnur Atli Magnússon.Vísir/Bára
Kári Jónsson.Vísir/Bára
Christian Dion Jones.Vísir/Bára
Daði Lár Jónsson.Vísir/Bára
Guðmundur Jónsson.Vísir/Bára
Hörður Axel Vilhjálmsson.Vísir/Bára
Hörður Axel Vilhjálmsson og Hjálmar Stefánsson.Vísir/Bára
Hörður Axel Vilhjálmsson.Vísir/Bára
Kári Jónsson.Vísir/Bára
Kári Jónsson.Vísir/Bára
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.Vísir/Bára
Ragnar Örn Bragason.Vísir/Bára
Hörður Axel Vilhjálmsson.Vísir/Bára
Sigmundur Már Herbertsson, dómari.Vísir/Bára
Paul Anthony Jones.Vísir/Bára
Kári Jónsson.Vísir/Bára
Friðrik Ingi Rúnarsson.Vísir/Bára
Davíð Kristján Hreiðarsson.Vísir/Bára
Hjálmar Stefánsson.Vísir/Bára
Kári Jónsson.Vísir/Bára
Kári Jónsson.Vísir/Bára
Reggie Dupree.Vísir/Bára
Hörður Axel Vilhjálmsson.Vísir/Bára
Guðmundur Jónsson.Vísir/Bára
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.Vísir/Bára
Reggie Dupree.Vísir/Bára
Daði Lár Jónsson.Vísir/Bára
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur.Vísir/Bára

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira