Lífið

Ekkert eldfimara en orðræða um konur

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Stella starfaði á jafnólíkum stöðum og Malaví og New York að þróunarmálum af ýmsu tagi.Fréttablaðið/Stefán Karlsson
Stella starfaði á jafnólíkum stöðum og Malaví og New York að þróunarmálum af ýmsu tagi.Fréttablaðið/Stefán Karlsson
Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra landsnefndar UN Women, hefur verið búsett erlendis síðustu fimmtán ár. Hún tók við starfinu af Ingu Dóru Pétursdóttur í júlí í fyrra. „Ég bjó nú síðast í New Orleans. Það er frábær staður að búa á, gott veður, tónlist, matur og menning. Þar starfaði ég sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi í þróunarmálum. Ég vann meðal annars fyrir frjáls félagasamtök, skrifaði umsagnir fyrir þau þegar þau sóttu um styrki í sjóði og gerði úttektir og árangursmat á verkefnum þeirra. Ég stofnaði líka fyrirtæki og flutti inn til Bandaríkjanna íslenskt sjávarsalt frá Saltverki. Ég kom því inn hjá Whole Foods og Amazon, á veitingastaði og í verslanir,“ segir Stella um síðustu verkefni sín áður en hún fluttist til Íslands.

Bjó í fimm ár í Malaví

Þar áður starfaði Stella í New York fyrir utanríkisráðuneytið hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. „Ég var þar í tvö ár og vann að jafnréttis-, umhverfis- og þróunarmálum. Ég tók meðal annars þátt í samningaviðræðum fyrir hönd Íslands varðandi stofnun UN Women. Það var ótrúlega áhugavert að taka þátt í því. Að finna á eigin skinni að það er ekkert eldfimara en orðræða um konur og líkama kvenna. Ég hef aldrei upplifað aðrar eins viðræður og um stofnun UN Women,“ segir Stella frá.

„Áður en ég fluttist til New York bjó ég í Malaví. Þar bjó ég í fimm ár og vann á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Það var ótrúleg reynsla að starfa að þróunarmálum á vettvangi í svona langan tíma. Það gaf mér góða reynslu að starfa í einu af fátækustu löndum heims og verkefnin sem ég vann voru margvísleg. Þau voru af félagslegum toga, sneru að jafnrétti, valdeflingu kvenna, fullorðinsfræðslu fyrir konur, byggingu barnaskóla og fleira.

Við Íslendingar erum búnir að vera starfandi í Malaví í rúm tuttugu ár á afmörkuðu svæði. Þar hefur meðal annars verið mikil áhersla á byggingu sjúkrahúsa og unnið að því að bæta fæðingaraðstöðu, mæðravernd og þess háttar. Svo voru líka vatns- og hreinlætismál í forgangi. Á þessum tíma sem ég var þar var til dæmis kóleru útrýmt á þessu svæði,“ segir Stella sem segist stolt af þeim árangri sem hefur náðst á svæðinu í gegnum árin þó margt sé enn óunnið.

Magnaður lærdómstími

„Það var gaman að sjá börnum sem sækja skóla fjölga og konurnar í fullorðinsfræðslu sem lærðu að lesa, að sjá þær valdeflast. Þannig að þær þurfi ekki að stóla á aðra, geti lesið bréf og skilaboð, talið peninga og stólað á sjálfar sig. Það var ótrúlega gefandi. Þær fóru að stofna eigin rekstur til þess að hafa í sig og á og auka sína afkomu og gátu þá líka hjálpað börnunum sínum því ef þú menntar konur þá menntar þú börnin í leiðinni. Þetta helst allt í hendur. Þetta var magnaður lærdómstími. Það var ótrúlega gott að búa í Malaví, fólkið er svo yndislegt,“ segir Stella frá.

Þora ekki út

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna blés UN Women á Íslandi til neyðarsöfnunar fyrir Róhingjakonur á flótta í Bangladess. Neyðarsöfnunin er svar við neyðarkalli sem barst frá höfuðstöðvum UN Women. Í Bangladess rekur UN Women neyðarathvarf fyrir konur, fjármagnið dugar aðeins út apríl og því skammur tími til stefnu.

„Þessar konur hafa flúið hræðilegar aðstæður í Mjanmar. Það er skelfilegt að það sé ekkert gert til að stöðva þetta. Nauðganir, hópnauðganir og ofsóknir. Þær flúðu yfir til Bangladess og eru komnar í flóttamannabúðir þar sem eru komin átta hundruð þúsund manns. Rúmlega helmingurinn er konur. Þær þora flestar ekki út fyrir kofans dyr. Eru að meðaltali 21 til 24 klukkutíma á dag innanhúss.

Maður getur ekki ímyndað sér þessar aðstæður sem konur búa við í flóttamannabúðunum, þar sem þær eru búnar að flýja neyðina en eru komnar í aðrar hættulegar aðstæður. Það er bara svo erfitt að halda utan um svona stórar búðir. Það er alltaf fólk sem nýtir sér neyð annarra og það er staðreynd að konur í neyð sem þessari eru mjög berskjaldaðar fyrir ofbeldi, mansali og kynlífsþrælkun.

Það er sorglegt að eftir allt sem þær hafa upplifað, þá er þetta veruleiki sem þær búa við í búðunum í dag,“ segir Stella.

„Markmiðið er að halda starfsemi neyðarathvarfsins gangandi. Við vitum að þarfir kynjanna eru ólíkar. Um 24 þúsund konur í búðunum eru ófrískar eða með barn á brjósti. Í neyðarathvarfinu fá þær atvinnutækifæri, til dæmis við að búa til sápur sem er svo dreift með sæmdarsettum til kvennanna, svo það er sjálfbærni í þessu,“ segir Stella sem segir biðlistann í athvarfið langan og fjármögnunina litla. „Það er alltaf vandinn sem við erum að kljást við. Þegar maður les þessar sögur og sér þörfina finnst manni það ótrúlega sorglegt að það sé ekki meira fjármagn veitt en sem betur fer hafa Íslendingar verið ótrúlega öflugir að styðja við okkar starf,“ segir Stella. „Ef ekkert verður að gert verður neyðarathvarfinu lokað nú í apríl.“

Styðja við áfallasögur kvenna

Verkefni UN Women eru fjölmörg á ári hverju. Nú er nýafstaðið átakið Fokk ofbeldi og þar áður söfnun fyrir sýrlenskar konur sem halda til í Zaatari-flóttamannabúðunum í Jórdaníu. „Allur ágóði af sölu Fokk ofbeldi húfunnar rennur beint í starf til að uppræta ofbeldi gegn konum, Vodafone hefur styrkt átakið. Þá er á næstunni viðburðurinn Milljarður rís. Það er dansbylting gegn ofbeldi og hann verður haldinn í blálokin á neyðarsöfnun okkar fyrir Róhingjakonur. Í ár ætlum við að tengja dansbyltinguna við konur af erlendum uppruna. Þær koma fram og segja sínar sögur, lesa upp fyrir okkur. Undanfarin ár hafa þúsundir manna mætt á viðburðinn sem við höldum í samstarfi við Sónar Reykjavík í sjötta sinn í ár,“ segir Stella frá.

UN Women ákvað líka að styðja við verkefni sem felur í sér rannsókn á áfallasögum kvenna sem Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, stýrir með liðsinni Örnu Hauksdóttur. Á næstunni verða allar íslenskar konur á fullorðinsaldri beðnar að taka þátt í rannsókn og svara ítarlegum spurningalista um áfallasögu sína og spurningum um heilsufar og sjúkdómasögu.

„Við viljum hvetja konur til að taka þátt. Þó að við séum ekki hluti af þessari rannsókn vildum við tengja okkur við þetta því öll okkar verkefni tengjast því að útrýma ofbeldi gegn konum. Við sáum samlegðaráhrif í þessu. Við förum saman í þetta með það fyrir augum að hefja enn frekari vitundarvakningu um mikilvægi þess að það liggi fyrir upplýsingar um áhrif ofbeldis á konur,“ segir Stella.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×