Innlent

Sýrlendingar læra íslensku á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Anna Linda með þeim Hiba Alhamwd og Yousra Alhalws sem eru að læra íslensku hjá henni. Þær komu, ásamt sex öðrum í fjölskyldunni frá Sýrlandi á Selfoss í október í haust.
Anna Linda með þeim Hiba Alhamwd og Yousra Alhalws sem eru að læra íslensku hjá henni. Þær komu, ásamt sex öðrum í fjölskyldunni frá Sýrlandi á Selfoss í október í haust. Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Um þrjú hundruð útlendingar sækja á hverju ári námskeið hjá Fræðsluneti Suðurlands til að læra íslensku. Sérstaka athygli vekur góður árangur íbúa frá Sýrlandi sem flutti á Selfoss í haust. Kennarinn á námskeiðunum segir nemendurna ótrúlega duglega og áhugasama að læra málið.

Það er líf og fjör í íslensku kennslu í einni kennslustofunni hjá Fræðsluneti Suðurlands á Selfossi þar sem Anna Linda Sigurðardóttir bregður á leik með nemendum. Þessi hópur er að klára íslensku eitt sem er sjö vikna námskeið tvisvar í viku og mun væntanlega halda áfram á námskeiði tvö hjá Önnu. Hópurinn kemur meðal annars frá Albaníu, Spáni, Danmörku, Nepal, Póllandi og Sýrlandi. Melina Sophie er frá Þýskalandi en hún vinnur á hestabúinu Grænhóli í Ölfusi.

„Þetta er mjög skemmtilegt, það er mjög skemmtilegt að læra íslensku“, segir Melina og bætir því við að strákarnir á Íslandi séu mjög sætir.

Anna Linda hefur kennt útlendingum íslensku í 16 ár hjá Fræðslunetinu, auk þess sem hún kennir íslensku í Vallaskóla á Selfossi.

„Á hverju einasta námskeiði koma nemendur mér á óvart hvað þeir eru flinkir, flottir og ná hröðum framförum og eru ótrúlega áhugasöm og dugleg. Ekki spillir fyrir að þau eru alltaf í góðu skapi“.

Átta manna fjölskylda frá Sýrlandi flutti á Selfoss í haust, mæðgur úr fjölskyldunni eru hjá Önnu að læra íslensku.

„Þeim gengur ótrúlega vel og krakkarnir eru sérlega duglegir og fullorðna fólkið, það eru allir svo áhugasamir og alltaf í góðu skapi“, segir Anna Linda.

En hvað finnst þeim erfiðast við íslenskunámið?

„Framburðurinn og  málfræðin sem þeim finnst flókin, þetta að þurfa alltaf að vera að breyta orðunum eins og lýsingarorðum og sögnum, þeim finnst þetta ótrúleg skrýtið.“

Mæðgurnar Hiba Alhamwd sem er 14 ára og Yousra Alhalws sem er 32 ára gengur vel á námskeiðinu.

„Ég vil læra mikla íslensku,“ segir Hiba og mamma hennar tekur undir það, hún vill líka vera dugleg að læra íslensku. Báðum segjast þeim líka mjög vel á búa á Íslandi og ekki síst á Selfossi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×