Erlent

Skripal-feðginin liggja enn þungt haldin

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Sérfræðingar að störfum á vettvangi í Salisbury.
Sérfræðingar að störfum á vettvangi í Salisbury. Vísir/AFP
Feðginin Sergei og Yulia Skripal, sem urðu fyrir eiturefnaárás á sunnudaginn var, liggja enn þungt haldin á sjúkrahúsi. Ástand þeirra er þó talið stöðugt. BBC greinir frá þessu.

Sergei Skripal er fyrrverandi rússneskur njósnari en hann var fangelsaður í Rússlandi árið 2006 fyrir að hafa gefið leyniþjónustu Bretlands upplýsingar um útsendara Rússa í Evrópu.

Sergei fannst meðvitundarlaus á bekk fyrir utan verslunarmiðstöð í Salisbury á sunnudaginn var ásamt dóttur sinni, hinni 33 ára gömlu Yuliu.

Lögregluþjónninn Nick Bailey, sem veiktist er hann reyndi að koma feðginunum til bjargar, er kominn til meðvitundar en ástand hans er enn alvarlegt.

 

Amber Rudd, innanríkisráðherra Breta, á vettvangi.visir/getty

Rannsókn málsins eykst að umfangi

Aukið púður hefur verið sett í rannsókn málsins en um 250 starfsmenn hryðjuverkadeildar lögreglunnar leggja nú sitt af mörkum. 200 vitni hafa verið auðkennd auk þess sem verið er að rannsaka yfir 240 sönnunargögn.

Cobra-öryggisráðið fundaði vegna málsins síðdegis í dag en Amber Rudd, innanríkisráðherra Breta, sagði í kjölfar fundarins að yfirvöld reyndu hvað þau gætu til þess að hafa uppi á þeim sem bera ábyrgð á tilræðinu.

Jarðneskar leifar eiginkonu Skripals, Ludmilu, voru grafnar upp í gær vegna rannsóknarinnar en samkvæmt dánarvottorði var banamein hennar krabbamein. Sonur þeirra hjóna, Alexander, lést í Sankti Pétursborg í fyrra en dánarorsök hans er ókunn. Líkamsleifar hans voru brenndar og munu því ekki nýtast rannsókninni.

Rússnesk yfirvöld hafa þvertekið fyrir að eiga nokkra hlutdeild í tilræðinu en Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, hefur ýjað að því að England muni mögulega draga sig úr HM í fótbolta sem fer fram í Rússlandi í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×