Lífið

Bono bálreiður vegna eineltis innan góðgerðasamtaka

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Bono er miður sín að hafa ekki tekist að vernda starfsmenn sína.
Bono er miður sín að hafa ekki tekist að vernda starfsmenn sína. Vísir/Getty
Bono, söngvari hljómsveitarinnar U2, segist hafa orðið bálreiður þegar frásagnir af einelti innan góðgerðasamtaka sem hann fjármagnar tóku að spyrjast út að því er fram kemur á vef Guardian.

Lægra settir starfsmenn innan samtakanna ONE hafa stigið fram og greint frá raunum sínum af einelti og ofbeldi. Bono segist axla ábyrgð, honum hafði ekki tekist að vernda starfsmennina.

Starfsstöðvar samtakanna eru í Jóhannesarborg í Suður- Afríku. Samtökin ONE voru stofnuð árið 2004 og er ætlað að berjast gegn sárri hungursneyð og sjúkdómum.

Innri athugun var sett af stað af hálfu samtakanna þegar hópur fyrrverandi starfsmanna ONE greindi frá því á Twitter að komið væri fram við suma starfsmenn eins og hunda. Hópurinn sagði frá því að starfsmennirnir hefðu ítrekað verið niðurlægðir og þá segist ein hafa lent í því að hafa verið lækkuð í tign innan ONE þegar hún neitaði að stunda kynlíf með embættismanni.

Í kjölfar athugunarinnar kom meðal annars í ljós að yfirmaður hefði kallað undirmenn sína heimska bjána og sagt að þeir væru einskis virði. Skeytasendingar yfirmannsins sýndu fram á lítilsvirðingu hans svo ekki var um villst.

Gayle Smith, sem tók við sem framkvæmdastjóri samtakanna fyrir ári, segir að hann muni hlusta á frásagnir allra sem stíga fram og lofar hann því skoða málið af mikilli festu og alvöru.

„Okkur þykir þetta svo leitt. Ég hata einelti, ég mun ekki umbera það,“ sagði Bono.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×