Skoðun

Líkamsmynd og fjölbreyttar fyrirmyndir

Elva Björk Ágústsdóttir skrifar
Slæm líkamsmynd er nokkuð algeng meðal ungs fólks, sérstaklega kvenna. Rannsóknir sýna að þær fyrirmyndir sem börn og unglinga hafa t.d úr teiknimyndum, tónlistarmyndböndum og Instagram geta haft mikil áhrif á þróun líkamsmyndar og líðan.

Árið 1998 var gerð allsherjargreining á 222 rannsóknum á kynjamun á útliti og líkamsmynd. Niðurstöður voru þær að mikil aukning hafði orðið á tíðni slæmrar líkamsmyndar hjá konum á 50 árum. Líkamsmynd karla var almennt betri en líkamsmynd kvenna þótt tíðni slæmrar líkamsmyndar hafði einnig aukist hjá þeim. Önnur rannsókn sem framkvæmd var frá 1972 til 1997 sýndi að óánægja með útlit jókst yfir þetta tímabil, úr 23% upp í 56% hjá konum en úr 15% í 43% hjá karlmönnum.

Rekja má slæma líkamsmynd ungs fólks að miklu leyti til þeirrar óhóflegu áherslu sem lögð er á grannan og/eða stæltan líkamsvöxt, hve ólíkt það útlit er raunverulegu útlit fólks og þeirra ókosta sem oft eru tengdir við feitari líkama. Þar sem fáir uppfylla skilyrðin um hinn eftirsóknarverða vöxt þá má segja að meiri hluti fólks beri sig saman við útlit sem fæstir geta nokkurn tímann öðlast.

Það er sterk tilhneiging hjá fólki að bera sig saman við aðra. Því nær sem við teljum okkar eigið útlit vera því útliti sem talið er aðlaðandi, því ánægðari erum við með okkur. Líkamsmynd veltur því að miklu leyti á þeirri ímynd sem er af aðlaðandi útliti í okkar samfélagi og hvernig við skynjum líkama okkar út frá ímyndinni. Til að mynda hefur það neikvæð áhrif á líkamsmynd og eykur vanlíðan að bera sig saman við aðra sem samkvæmt gildum samfélagsins líta betur út heldur en við sjálf.

Kringum árið 1950 var talið mjög aðlaðandi að vera með mjúkar línur og uppfylltu þá fleiri konur skilyrðin um hinn eftirsóknarverða líkama. Gerð var rannsókn frá árið 1980 á þeim breytingum sem höfðu orðið á fegurðarviðmiðum kvenna yfir 20 ára tímabil, frá 1959 til 1978, en þar kom fram að á meðan fyrirsætur og keppendur í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ameríka höfðu grennst töluvert yfir tímabilið hafði líkamsþyngd bandarískra kvenna aukist á sama tíma.

Skilaboð fjölmiðla um hvaða vaxtarlag er talið fallegast ná ekki einungis til fullorðinna heldur einnig til barna og unglinga. Sem dæmi þá koma leikfangaauglýsingar og barnasjónvarpsefni skilaboðum um útlit áleiðis til barna. Útlit leikfanga og sögupersóna í barnaefni getur haft áhrif á mótun líkamsmyndar þar sem börn og unglingar bera sig saman við þær persónur. Útlit þessara persóna er ólíkt útliti flestra, til að mynda eiga mörg börn Barbie dúkku en telja má nær ómögulegt fyrir börn að líta út líkt og Barbie dúkka. Svipað má segja um bardagamennina sem börn jafnan leika sér með og áhrif þeirra á líkamsmynd. Undanfarna ártugi hefur útlit ýmissa leikfanga breyst og orðið mun óraunhæfari; Barbie hefur grennst, G.I Joe er mun vöðvameiri en hann var áður og Pony hestarnir frægu hafa greinilega verið sendir í megrun.

Ímynd hins fullkomna líkama hefur því á undanförnum áratugum breyst frá því að vera í mýkra laginu, yfir í það að vera grannur og stæltur og uppfylla því enn færri skilyrðin um hinn eftirsóknarverða vöxt. Með þessari breytingu á því sem talið er fallegt hefur bilið milli raunverulegs vaxtarlags fólks og því vaxtarlagi sem talið er eftirsóknarverðast aukist til muna.

Ólíkt hugmyndum margra þá eru endalausu skilaboðin um hinn fullkomna granna og stælta líkama ekki hvati til heilbrigðari lífshátta. Skilaboðin geta ýtt undir þróun slæmrar líkamsmyndar sem hefur áhrif á heilsu og lífsvenjur. Þessi slæma líkamsmynd getur til að mynda haft þau áhrif að við hugsum verr um líkama okkar og grípum til óheilbrigðra megrunaraðgerða sem hafa slæm áhrif á heilsu og líðan, bæði til lengri og skemri tíma. Einnig getur slæm líkamsmynd ýtt undir kvíða, þunglyndi og leitt til annarra geðrænna vanda.

Með aukinni fjölbreytni í útliti t.d með tilkomu plus size fyrirsæta og meiri fjölbreytileika í útliti áberandi einstaklinga eykst viðurkenning ólíkra líkama og félagslegur samanburður breytist. Einstaklingar sem ekki uppfylla skilyrðin um hinn eftirsóknaverða vöxt eru því líklegri til að sjá fólk sem líkist þeim í fjölmiðlum. Fjölbreyttari fyrirmyndir minnka ósamræmið milli raunverulegs vaxtalag fólks og þess útlits sem það sér daglega sem getur haft jákvæð áhrif á líðan og heilsu. Mikilvægt er að skoða betur áhrif fjölbreyttari fyrirmynda á líðan fólks og hvetja fyrirtæki og fjölmiðla til að bæta við í flóru fyrirmyndanna.

Næstkomandi þriðjudag, þann 13. mars fögnum við Degi líkamsvirðingar. Í tilefni af deginum verður boðið upp á ókeypis fræðslu á Cafe Meskí kl. 20:00 um líkamsmynd og fjölbreyttar fyrirmyndir.

Verið öll velkomin!

Höfundur er sálfræðikennari og varaformaður Samtaka um líkamsvirðingu




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×