Erlent

Telur afar líklegt að Rússar beri ábyrgð á því að eitrað var fyrir njósnara

Birgir Olgeirsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Breta.
Theresa May, forsætisráðherra Breta. Vísir/Getty
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, telur afar líklegt að rússnesk yfirvöld beri ábyrgð á því að fyrrverandi njósnara og dóttur hans var byrlað eitur í Bretlandi.

May tilkynnti þessa niðurstöðu á breska þinginu í dag en greint er frá henni á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Þar segir að því sé haldið fram að rússnesk yfirvöld beri annað hvort beina ábyrgð á því að eitrað var fyrir njósnaranum fyrrverandi og dóttur hans eða þá að yfirvöld í Rússlandi hafi komið því í kring að eitrið rataði í hendur tilræðismanna.

May sagði að búið væri að greina eitrið sem er af tegundinni Novichok. Sagði forsætisráðherrann að utanríkisráðherra Breta, Boris Johnson hefði tilkynnt sendiherra Rússa að yfirvöld í Rússlandi yrðu að gera fyllilega grein fyrir sínu máli sem allra fyrst.

Sagði hún að ef ekki fást skýr svör frá Rússum þá verði litið svo á að Rússar hafi beitt valdi sínu ólöglega á breskri grund.

Njósnarinn fyrrverandi heitir Sergei Skripal, 66 ára, en dóttir hans heitir Yulia, 33 ára. Þau fundust meðvitundarlaus á bekk í verslunarmiðstöð í Salisbury í Wiltshire í suðurhluta Englands. Engir sjáanlegir áverkar voru á þeim. Þau liggja nú þungt haldin á sjúkrahúsi en líðan þeirra er sögð stöðug.

Lögreglumaður sem hlúði að þeim er enn þungt haldinn eftir að hafa komist í tæri við eitrið.

Theresa May sagði á breska þinginu í dag að ástæðan fyrir því að sjónum breskra yfirvalda væri beint að Rússum væri vegna fyrri verka þeirra þegar kemur að því að ráða þá af dögum sem hafa flúið Rússland.

Skripal var dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir njósnir í þágu Breta í Rússlandi árið 2006. Honum var sleppt fjórum áður síðar og veitt hæli á Bretlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×