Tónlist

Beyoncé og Jay-Z ætla aftur í tónleikaferðalag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Beyoncé og Jay-Z á tónleikum árið 2016.
Beyoncé og Jay-Z á tónleikum árið 2016. Vísir/Getty

Beyoncé og Jay-Z tilkynntu í dag um væntanlegt tónleikaferðalag undir yfirskriftinni „On the Run II“ sem hleypt verður af stokkunum í sumar. Um er að ræða annað sameiginlegt tónleikaferðalag hjónanna.

Fyrstu tónleikarnir verða haldnir í Cardiff, höfuðborg Wales, þann 6. júní næstkomandi að því er fram kemur í frétt Variety. Þá mun miðasala hefjast mánudaginn 19. mars samkvæmt fréttatilkynningu frá aðstandendum tónleikaferðalagsins. Beyoncé og Jay-Z munu koma víða við en þau hyggjast fyrst þræða stórborgir Evrópu og halda svo yfir til Bandaríkjanna.

Fyrstu fréttir bárust af fyrirhuguðu tónleikaferðalagi í síðustu viku, að því er virðist fyrir mistök, en tilkynningum um tónleikana var eytt í snarhasti af Facebook-síðu Beyoncé.

Hjónin héldu í sameiginlegt tónleikaferðalag árið 2014, þá einnig undir yfirskriftinni „On the Run“, við góðar undirtektir. Hjónaband Beyoncé og Jay-Z hefur enn fremur verið til umfjöllunar síðustu misseri eftir að nýjasta plata hinnar fyrrnefndu, Lemonade, kom út árið 2016. Beyoncé virðist þar syngja um framhjáhald Jay-Z en hann viðurkenndi síðar að hafa verið ótrúr eiginkonu sinni.

Hér að neðan má sjá lagið Young Forever/Halo í flutningi Beyoncé og Jay-Z á tónleikaferðalagi þeirra árið 2014.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.