Erlent

Þingmaður sagði nauðsynlegt að siða eiginkonur til með barsmíðum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikil reiði hefur gripið um sig í Úganda vegna ummæla þingmannsins.
Mikil reiði hefur gripið um sig í Úganda vegna ummæla þingmannsins. Skjáskot/NTV
Þingmaður frá Úganda, Onesmus Twinamasiko, hefur verið krafinn um afsökunarbeiðni eftir að hann sagði að karlmenn ættu að „lemja“ eiginkonur sínar.

Twinamasiko lýsti þessari skoðun sinni yfir í viðtali við úgönsku sjónvarpsstöðina NTV er hann var inntur eftir viðbrögðum við ummælum forseta Úganda, Yoweri Museveni. Museveni sagði í vikunni að karlmenn, sem beittu eiginkonur sínar ofbeldi, væru „hugleysingjar“. Twinamasiko sagði karlmenn hins vegar skylduga til þess að refsa eiginkonum sínum.

„Þú verður að snerta hana örlítið, tækla hana, lemja hana einhvern veginn til þess að koma lagi á hana,“ sagði Twinamasiko.

Talsmenn hjálparsamtaka kvenna sem hafa verið beittar heimilisofbeldi í Úganda hafa nú krafið þingmanninn um afsökunarbeiðni. Þá hafa einhverjir bent honum á að leita sér hjálpar vegna viðhorfa sinna og enn aðrir vilja að hann segi af sér þingmennsku, að því er fram kemur í frétt BBC.

Twinamasiko skýrði mál sitt frekar í viðtali við breska ríkisútvarpið. Þar sagðist hann ekki hafa átt við barsmíðar sem gætu leitt til alvarlegra meiðsla eða dauðsfalla heldur væri hann aðeins að mæla með því að eiginmenn „slægju konur sínar utan undir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×