Lífið

Ungverskir þungarokkarar þurfa að æfa stíft fyrir Eurovision

Birgir Olgeirsson skrifar
Söngvari AWS á sviði í undankeppni Eurovision í Ungverjalandi.
Söngvari AWS á sviði í undankeppni Eurovision í Ungverjalandi.

Ungverska hljómsveitin AWS verður fulltrúi Ungverja í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, sem fer fram í maí næstkomandi. Um er að ræða hljómsveit sem leikur harðkjarnarokk og kom sigurinn hljómsveitarmeðlimum nokkuð á óvart.

AWS var meðal þátttakenda í undankeppni Eurovision í Ungverjalandi sem nefnist A Dal. Þrjátíu lög voru í keppninni sem voru skipt niður í þrjá riðla. Dómnefnd og áhorfendur völdu lög þar sem komust áfram í undanúrslit. Upp úr undanúrslitunum komust aðeins fjögur lög. AWS átti eitt þeirra og stóð uppi sem sigurvegari í hreinni kosningu áhorfenda um allan heim.

Lagið sem hljómsveitin flytur heitir „Viszlát nyár“ sem myndi þýðast lauslega á íslensku sem „Bless sumar“.

Um er að ræða fimm manna hljómsveit sem stofnuð var árið 2006. Þeir voru fimm saman á sviði í undankeppninni í Ungverjalandi og með bakraddasöngvara baksviðs. Í viðtali eftir undankeppnina var þeim bent á að samkvæmt reglum Eurovision mega ekki fleiri en sex koma að flutningi laga. Voru þeir spurðir hvernig þeir ætli að bregðast við þeirri stöðu, því ef þeir ætla sér að taka fleiri en einn bakraddasöngvara með sér til Portúgal þá yrði það á kostnað einhvers úr hljómsveitinni.

Sögðust þeir ætla að taka með sér einn bakraddasöngvara og halda síðan stífar æfingar fram að keppni í maí.

Hljómsveitin mun stíga á svið á seinna undankvöldi Eurovision í Altice-höllinni í Lissabon 10. maí næstkomandi. Ari Ólafsson, fulltrúi Íslendinga, verður í fyrri undanriðlinum 8. maí næstkomandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.