Skoðun

Vorhreinsun

Eyþór Arnalds skrifar
Nú þegar borgin kemur undan snjónum sést bágt ástand gatna og göngustíga vel. Viðhald hefur verið of lítið og sums staðar eru götur bókstaflega í molum. Það blasir við að í þessum efnum þarf önnur og breytt vinnubrögð. Þrátt fyrir að vindar blási hressilega er svifryk með mesta móti miðað við erlendar borgir. Uppruni svifryksins er að mestu leyti úr götum borgarinnar eða 49% úr malbiki. Næst á eftir kemur sót sem er 31% og á uppruna sinn að miklu leyti úr dísilknúnum farartækjum.

Svifryk þarf að stórminnka í borginni. Fara þarf í fyrirbyggjandi aðgerðir eins og kostur er. Við getum dregið úr svifryksmengun með því að leggja slitsterkara malbik á göturnar en nú er gert. Skoða þarf hvort unnt sé að draga enn frekar úr svifryki með því að steypa umferðarþyngstu göturnar. Jafnframt þarf Reykjavíkurborg að sópa götur og gangstéttir oftar og skola með vatni eftir þörfum. Svifryk endar inni í húsum fólks og lungum þess. Þessu þarf að breyta.

Reykjavík getur gert betur

Annað mál sem er ekki síður mikilvægt er sorphirða og flokkun á sorpi. Hér getur Reykjavík gert betur. Við sjáum önnur sveitarfélög þar sem meiri metnaður er lagður í flokkun og sorphirðu. Höfuðborgin Reykjavík, langstærsta sveitarfélag landsins, á að sýna gott fordæmi og vera leiðandi í sorphirðu. Í öðrum sveitarfélögum hefur flokkun verið meiri á sorpi en í Reykjavík í mörg ár og þar af leiðandi minni urðun. Til að mynda á Akureyri. Þar munu þrír af hverjum fjórum strætisvögnum ganga fyrir metangasi sem annars gufaði upp af sorphaugunum til skaða fyrir andrúmsloftið.

Í Reykjavík gætu Strætó og Sorpa unnið betur saman og minnkað bæði uppgufun metangass af sorphaugunum sem og losun dísilvéla strætó. Rafmagnsstrætisvagnar eru áhugaverð lausn en enn hefur enginn vagn komið til landsins. Allt eru þetta mál sem skipta okkur Reykvíkinga máli. Í vor gefst tækifæri til að breyta um stefnu í þessum málum. Gerum betur. Vilji er allt sem þarf.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×