Innlent

Þeir viðkvæmustu séu ekki fangar svifryksins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra. Vísir/eyþór
„Það má ekki verða þannig að þeir sem eru viðkvæmastir fyrir svifryki verði eins konar fangar mengunarinnar. Að einu aðgerðirnar sem við grípum til þegar svifryksmengunin er mikil sé að segja þeim að halda sig innandyra,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Sex daga á þessu ári hefur svifryksmengun farið upp fyrir sólarhringsheilsumörk í Reykjavík. Í fyrra gerðist það í 17 daga. Guðmundur Ingi segir að eðlilegt sé að horfa til úrræða eins og að takmarka umferð.

„Ég vil að við getum snúið þessu við og rétt eins og það eru takmarkanir á umferð þegar veður er slæmt séu takmarkanir á umferð er mengun er mikil.“

Í drögum að frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, til breytinga á umferðarlögum er heimild fyrir sveitarfélög til að leggja á allt að 20 þúsund króna gjald á bíla á nagladekkjum.

Sjá einnig: Varhugavert að fara út að skokka á verstu dögum

Loka megi götum ef svifryksmengun mælist yfir mörkum. Guðmundur Ingi bendir líka á að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eigi að gera aðgerðaráætlanir um skammtímaaðgerðir. Umhverfisstofnun vinni nú að leiðbeiningum um þetta í samræmi við áætlun um loftgæði.

„Ég tel að ef við sjáum þessar breytingar verða núna alveg á næstunni séum við með fleiri úrræði í höndunum. En það sem er líka hægt að grípa til eru aðgerðir eins og að rykbinda eða að hreinsa göturnar betur. Það þarf að vera blanda,“ segir umhverfisráðherra


Tengdar fréttir

Varhugavert að fara út að skokka á verstu dögum

Sex daga í ár hefur svifryk í Reykjavík farið yfir sólarhringsheilsumörk. Svifrykið getur aukið líkur á blóðtöppum og hjartaáföllum. Lagasetningu þarf til að hægt sé að draga úr umferð. Unnið er að breytingum á umferðarlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×