Enski boltinn

Geta tryggt titilinn með sigri á United: „Tækifæri sem gefst bara einu sinni á ævinni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincent Kompany leiðir lið Manchester City út í leik á móti Manchester United.
Vincent Kompany leiðir lið Manchester City út í leik á móti Manchester United. Vísir/Getty
Manchester City vann 2-0 sigur á Stoke City í lokaleik 30. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í gærkvöldi og vantar nú aðeins tvo sigra í viðbót til að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn.

Manchester City náði aftur sextán stiga forystu á Manchester United en núna eru bara 8 leikir og 24 stig eftir í pottinum.

Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, er ekki lengur að tala um hvort liðið verði enskur meistari heldur hvenær. Hann hefur augun á því að tryggja sér titilinn 7. apríl næstkomandi.

Manchester City tekur þá á móti nágrönnum sínum úr Manchester United. Takist City að vinna Everton í næsta leik þá fá þeir tækifæri til að tryggja sér titilinn í byrjun apríl og með sigri á erkifjendum sínum frá rauða hluta Manchester borgar.

„Allir í bláa hlutanum af Manchester vita að þetta er tækifæri sem gefst bara einu sinni á ævinni,“ sagði Vincent Kompany við BBC eftir leikinn.

„Pössum okkur samt. Við munum ekki fá þetta á silfurfati,“ sagði Kompany. Það var ekki alveg sama hljóðið í knattspyrnustjóranum Pep Guardiola.

„Nú erum við tveimur eða þremur leikjum frá því að verða meistarar en það skiptir engu máli hvenær við tryggjum okkur titilinn,“ sagði Pep Guardiola.

„Við erum komnir mjög nálægt þessu núna. Við erum komnir með 81 stig sem er heilmikið. Við áttum traustan leik, stjórnuðum leiknum og fengum engin færi á okkur,“ sagði Guardiola.

„Það er erfitt að tryggja sér titilinn og það er flókið. Okkar félag hefur ekki reynslu af því að vinna marga ttila. Það er því betra að tryggja okkur þennan sem fyrst en það skiptir samt engu máli hvar við tryggjum okkur hann,“ sagði Guardiola.

„Ég skil það samt að það er mikilvægt fyrir stuðningsmenn okkar að tryggja okkur titilinn á móti United en næsta markmið er Everton-leikurinn. Eftir það og ef við spilum eins og í kvöld þá tryggjum við okkur titilinn fyrr en síðar,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×